Fréttir

Fagnar sigri í Grindavíkurmálinu

By Miðjan

February 21, 2024

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar:

Stefán Kristjánsson er búsettur í Grindavík og rekur þar atvinnufyrirtæki. Hann taldi sig eiga rétt á að fara heim til sín og að húsakynnum fyrirtækisins, þó að lögregluyfirvöld hefðu bannað honum það. Þetta bann fór augljóslega gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem annars vegar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og hins vegar að þrátt fyrir þetta ákvæði megi með sérstakri lagaheimild takmarka friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Það er sem sagt skilyrði fyrir slíkri takmörkun að brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra.

Stefán vildi fara heim til sína á eigin ábyrgð. Ljóst var að hann ógnaði ekki hagsmunum annarra með því. Samt var honum meinuð heimförin. Hann höfðaði því mál á hendur ríkinu með dómkröfu um að hann væri ekki bundin af þessu banni. Nú hefur verið ákveðið að allir Grindvíkingar skuli njóta þess réttar sem fólst í dómkröfum Stefáns og hefur hann því fellt niður málsókn sína.

Þessi maður á heiður skilinn fyrir að krefjast þess réttar sem stjórnarskráin kveður á um. Það er alltof algengt að borgarar á Íslandi láti ráðamenn beita sig valdi sem fer í bága við stjórnarskrárbundin réttindi þeirra. En ekki Stefán. Hann er fulltrúi þeirra landsmanna sem krefjast þess frelsis sem varið er af stjórnarskránni. Nú hefur hann haft fullnaðarsigur í málinu. Grindvíkingar ættu að heiðra sérstaklega þennan frjálsborna mann sem beygir sig ekki fyrir ofríki stjórnvalda í landinu og lætur reyna á réttindi sín fyrir dómi ef á þarf að halda.