- Advertisement -

Fagnar ríkisábyrgðinni til Icelandair

„Þau sem talað hafa um að tryggja þurfi samgöngur til landsins, þau sem bera hag starfsfólks fyrirtækisins fyrir brjósti og vilja að þau hafi enn vinnu, þau sem vilja lágmarka áhættu ríkissjóðs og helst búa þannig um hnútana að ekki komi til neinna fjárútláta þar, hljóta að fagna því að geta samþykkt umrædda ríkisábyrgð þegar hún kemur til atkvæða á næstu dögum,“ þannig endaði Kolbeinn Óttarsson Proppé stutta ræðu sína á Alþingi í dag.

Ræðu sína byrjaði þingmaðurinn svona: „Að taka ákvörðun um að veita fyrirtækjum ríkisábyrgð er staða sem ég hygg að enginn þingmaður taki af léttúð, staða sem enginn vill í raun vera í. En við erum engu að síður í þeirri stöðu enda hefur kórónuveirufaraldurinn skapað ófáa fordæmalausu stöðuna. Eftir því sem slæm staða flug- og ferðamála varð ljósari í vor og snemmsumars, og eftir að ljóst varð hve erfið staða Icelandair var, varð sú krafa háværari hjá háttvirtum þingmönnum að stjórnvöld gripu á einhvern hátt inn í og tryggðu flugsamgöngur til landsins. Það væri fólkinu sjálfu til heilla.“

Kolbeinn sagði: „Gríðarlega ströng skilyrði eru sett fyrir slíkum stuðningi. Þess er m.a. krafist að höfuðstöðvar verði á Íslandi og þar með að kjarasamningar verði eftir íslenskum lögum. Skýrt er dregið fram í hvað fyrirtækið má eyða þeim fjármunum sem það mögulega fengi og kveðið á um að það megi ekki greiða arð á meðan ríkisábyrgðarinnar nýtur. Veð eru sett fyrir ábyrgðinni eins örugg og hægt er að finna við þessar aðstæður. Raunar eru skilmálarnir svo strangir að fyrirtækið mun forðast það í lengstu lög að nýta sér lánalínuna. Hún er þarna en samt ekki. Það mætti jafnvel segja, forseti, að þetta væri lánalína Schrödingers.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: