- Advertisement -

Fagna verkleysi ríkisstjórnarinnar

Hafa á sama tíma miklar áhyggjur af mikilli törn sem er framundan og óttast að mál verði afgreidd í flýti og flumbrugangi.

 

„Það er vissulega hægt að skemmta sér mjög vel og lengi yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar,“ sagði Þorsteinn Víglundsson Viðreisn á Alþingi í gær og Þorsteinn Sæmundsson  Miðflokki var á sömu nótum. „Ég er kominn hingað til þess að lýsa sérstakri ánægju minni yfir því hvað ríkisstjórnin leggur fram fá mál, hún gerir þá ekkert af sér á meðan,“ sagði hann.

Stjórnarandstæðingar hafa kvartað yfir að ríkisstjórnin leggur ekkert fram af þeim fjömörgu málum sem hún hefur boðað. Það er ekki gott fyrir þingið, því nú stefnir í að fjöldi mála verði afgreiddur í ómögulegu óðagoti.

„Það er alvörumál að ætla að hrúga inn á þingið á síðustu dögum þess málum sem á að ljúka og afgreiða. Það þýðir að þingið mun ekki hafa tíma til að sinna þeim málum sem skyldi. Ég held að það sé líka deginum ljósara að við erum hér að stefna inn í nefndaviku í annarri viku héðan í frá og við höfum engin mál til að vinna í þeirri viku,“ sagði Þorsteinn Víglundsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Það er hins vegar annað ef og þegar ríkisstjórnin tekur á sig rögg og hellir hér inn málum getur ríkisstjórnin ekki ætlast til þess og ekki búist við því að þingmenn verði hér eins og einhverjir átómatískir stimpilpúðar og afgreiði hvert málið af öðru í gegnum þing og nefndir bara svona eftir handarvendingu frá hæstvirtri ríkisstjórn,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson.

Þessar hugsanir þingmanna og nafnanna Þorsteins Víglundssonar og Þorsteins Sæmundssonar eru hér teknar af mörgum ámóta. Eins og kemur fram hér að ofan er nefndarvika framundan en við blasir að nefndir Alþingis muni ekki hafa nein til að fjalla um. Allir vita að framundan, hvenær sem það verður, sturtar ríkistjórnin málum inn á þingið og þau verða afgreidd og samþykkt á miklum hraða. Þrátt fyrir fyrirheit ríkisstjórnarinnar um breytt vinnubrögð og meiri virðingu fyrir Alþingi ætlar núverandi ríkisstjórn að verða ein sú versta hvað þetta varðar.

„Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af verkleysi þessarar ríkisstjórnar, ég held að ég sé ósammála henni í flestum þeim verkum sem hún ætlar að taka sér fyrir hendur þannig að að því leytinu til get ég tekið undir með þingmanninum um að þetta sé ágætt,“ sagði Þorsteinn Víglundsson.

Þorsteinn Sæmundsson benti á að fyrir þinginu liggi mörg ágæt mál frá þingmönnum. „Mig langar að minnast á eitt mál sem er nýframlagt af hálfu Miðflokksins og það fjallar um að fella út húsnæðislið úr vísitölu sem mælir verðbreytingar á lánum.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: