Lionshreyfingin færði Landspítala í vikunni tvö tæki til augnlækninga, samtals að virði tíu milljóna. Annað tækið er sjónsviðsmælir sem leysir af hólmi eldra tæki spítalans og hitt er nýtt tæki sem greinir augnsjúkdóma í nýfæddum og ungum börnum.
Á vef Velferðarráðuneytisins kemur fram að Alþjóðahjálparsjóður Lions hafi fjármagnað kaupin á tækjunum sem Joe Preston alþjóðaforseti hreyfingarinnar afhenti við hátíðlega athöfn á Landspítalanum þann 14. október. Þessi dagur er jafnframt Alþjóðlegur sjónverndardagur Lions og enn fremur er vikan 9.-15. október vika sjónverndar á Íslandi þar sem Lions og Blindrafélagið sameinast um að vekja athygli á sjónvernd og augnlækningum.
Sjónsviðsmælirinn nýtist meðal annars við greiningu á gláku og til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Með hinu tækinu, sem er nýjung í tækjakosti spítalans, er unnt að greina augnsjúkdóma í nýfæddum og ungum börnum.