Enn er risin deila milli sérfræðilækna og þeirra sem vilja gera hlut þeirra minni og vilja efla þess í stað þjónustuna innan sjúkrahúsa.
Meltingarlæknarnir Sigurður Einarsson,Sif Ormarsdóttir og Stefán Haraldsson vara við, í grein í Læknablaðinu, að fullyrðingar um oflækningar geti fælt fólk frá að leita til lækna:
„Þegar landlæknir gefur yfirlýsingar um oflækningar getur það haft þær afleiðingar að þeir sem eru að hugsa um að leita til læknis hætti við. Jafnvel þeir sem eru með einkenni. Við biðjum því landlækna, fyrrverandi og núverandi, að stíga varlega til jarðar í þessari umræðu og kynna sér málið áður en yfirlýsingar eru gefnar.“
Þau hafa áhyggjur af skimun fyrir ristilkrabbameini.
„Formleg skimun fyrir ristilkrabbameini hefði átt að hefjast á Íslandi fyrir löngu. Ristilkrabbamein er algengur sjúkdómur sem með sameiginlegu átaki væri nánast hægt að útrýma. Félag sérfræðinga í meltingarsjúkdómum ráðleggur að skima fyrir ristilkrabbameini með ristilspeglunum hjá einkennalausu fólki milli fimmtugs og 75 ára. Við skorum á heilbrigðisyfirvöld að skoða árangur annarra landa.“
Ragnar Jónsson bæklunarlæknir skrifaði fyrir tæpu ári:
„Enn einn snúningur gegn þjónustu sérfræðilækna í heilbrigðiskerfinu er nú tekinn. Hafa margir lagst á sveifina og fundið þessari þjónustu í einkarekstri allt til foráttu. Hafa þar lýst skoðunum sínum m.a. þingmenn, ráðherrar og sérfræðingar í heilbrigðismálum svo nokkrir séu nefndir og hafa hamast gegn einkarekstri og vilja, að því er virðist, leggja hann niður eða flytja þessa starfsemi annað. Í því sambandi hefur verið nefnt að betra og hagkvæmara væri að færa starfsemina inn á sjúkrahúsin og auka göngudeildarstarfsemi og aðgerðir þar. Hefur landlæknir lýst yfir þeirri skoðun sinni að slíkt fyrirkomulag væri hagkvæmara og betra en það sem hefur verið unnið eftir undanfarna áratugi. Hefur því verið haldið fram að misnotkun hafi átt sér stað og ástæðulausar og of margar aðgerðir verið framkvæmdar á starfsstöðvum sérfræðinga utan sjúkrahúsa. Hafa þar einkum verið nefndir bæklunarlæknar og háls-, nef- og eyrnalæknar. Á fundi undirritaðs og landlæknis í vor lýsti landlæknir því yfir að liðspeglanir á hnjám sjúklinga eftir miðjan aldur væru fleiri hér á landi en t.d. í Svíþjóð. Við þennan samanburð var ekki tekið tillit til þess að tíðni slitgigtar, biðlistastaða og fleiri þættir eru aðrir hér á landi en í Svíþjóð. Þetta gerir því allan slíkan samanburð marklítinn.“