Fæ ekki betur séð en verið sé að mismuna fólk í þessu tilfelli
Hvers vegna er talið óhætt að senda þessa fjölskyldu núna út í óvissuna á kóvidtímum?
Marinó G. Njálsson skrifar:
Merkilegt að segja málsmeðferðartíma hafa verið innan við 16 mánuði, þegar búið er að bíða í marga mánuði með að framfylgja ákvörðuninni. Málsmeðferð getur ekki lokið fyrr en ákvörðunin er fullnustuð, annars er boðið upp á að stjórnvöld bíði (einhverra hluta vegna) í mjög langan tíma með að senda fólk úr landi (eins og í tilfelli egypsku fjölskyldunnar) og síðan er bara allt í einu gengið í verkið.
Síðan er það jafnræðið. Í vetur komu upp mál, þar sem vísa átti fjölskyldum til Grikklands í miðjum faraldri. Hætt var við það þar sem talið var að ástandið væri ekki nægilega tryggt í Grikklandi. Beri maður hins vegar saman ástandið í Grikklandi frá 10. mars til loka apríl, þegar fyrri bylgjan gekk yfir Grikkland, þá voru kóvid tilfellin í landinu rétt rúmlega 2.500. Tökum jafnlangt tímabil fyrir Egyptaland, þ.e. 52 daga frá og með gærdeginum til 24. júlí, þá fáum við tæplega 10.600 tilfelli. Þó daglegum tilfellum hafi fækkað mikið frá því þau voru flest (hátt í 1780), þá eru þau samt fleiri á nánast hverju degi en þau voru flest í Grikklandi í mars og apríl.
Hvers vegna er talið óhætt að senda þessa fjölskyldu núna út í óvissuna á kóvidtímum, fjölskyldu sem hefur náð að aðlagast íslensku samfélagi nokkuð vel, en ekki þótt rétt að senda nokkrar fjölskyldur til Grikklands fyrir hálfu ári? Hin gullna regla stjórnsýslunnar er að fólk í sambærilegri stöðu á að fá sambærilega úrlausn. Á því byggir jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga. Ég fæ ekki betur séð en verið sé að mismuna fólk í þessu tilfelli, þar sem alvarleiki faraldursins er mun meiri í Egyptalandi núna en hann var í Grikklandi, þegar ákveðið var að hætta að fljúga hælisleitendum þangað.
Greinin birtist á Facbooksíðu Marinós.