Gunnar Smári skrifar: Benedikt Sveinsson, faðir fjármálaráðherrans, var aðeins með 65 þúsund krónur í launatekjur árið 2016 samkvæmt tekjur.is og greiddi því engan tekjuskatt. Benedikt var hins vegar með um 165,4 m.kr. í fjármagnstekjur og greiddi af því aðeins 20% skatt eða um 33,1 m.kr.
Ef fjármagnstekjur væru skattlagðar eins og aðrar tekjur, svipað og gert var fyrir tiltölulega skömmu síðan, hefði Benedikt borgað um 72 m.kr. í skatt vegna tekna ársins 2016. Pabbi fjármálaráðherrans fékk því skattaafslátt upp á um 38,9 m.kr. á þessu eina ári. Skattaafsláttur hinna ríku hefur verið fjármagnaður með aukinni skattbyrði hinna fátæku. Þegar fjármagnstekjur voru skattlagðar eins og launatekjur voru lægstu laun án skatta.
Í dag greiðir fólk á lágmarkslaunum um 630 þús. kr. í skatt á hverju ári. Til að létta sköttum af Benedikt þurfti því að leggja skatta á 62 manns á lægstu launum, sem annars hefðu verið skattlögð. Skattastefna Sjálfstæðisflokksins snýst um að skattleggja fátækasta fólkið svo ríkasta fólkið, meðal annars pabbi fjármálaráðherrans, komist upp með að borga lægstu fjármagnstekjuskatta í okkar heimshluta. Þetta er stefna sem hentar þeim vel sem eru með um 14 m.kr. á mánuði, eins og pabbi fjármálaráðherrans.
Fólk sem lifir af launatekjum ætti aldrei að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er álíka gáfulegt og ef hænurnar kysu minkinn sem bústjóra.
Vegna umræðu um efni þessa status set ég hér inn tvær viðbætur:
BENEDIKT HEFÐI BORGAÐ MIKLU MEIRA Á NORÐURLÖNDUNUM:
Fjármagnstekjuskattur á Íslandi er lægstur í okkar heimshluta, engin þjóð er jafn undanlátssöm gagnvart hinum ríku. Ef við miðum við Norðurlöndin þá gáfum við Benedikt um 22,6 m.kr. þetta árið, miðað við meðaltal Norðurlandanna. Ef við hefðum rukkað hann eins og Norðmenn hefði hann borgað 14,5 m.kr. meira í skatt, 16,5 m.kr. meira ef við hefðum rukkað eins og Svíar, 23,1 m.kr. ef við hefðum lagt á fjármagnstekjuskatt eins og Finnar og 36,4 m.kr. ef við hefðum innheimt skattinn eins og Danir. Fyrir utan veikara velferðarkerfi þá skerum við okkur frá hinum Norðurlöndunum með lágum sköttum á hin ríku. Og þetta tvennt eru síamstvíburar; lágir skattar á hin ríku leiða til veikingar velferðarkerfisins. Það segir sig sjálft. Þú getur ekki haft hvort tveggja; lága skatta á hin ríku og öflugt velferðarkerfi. Skandinavar kusu öflugt velferðarkerfi. Við kusum lága skatta á hin ríku
BENEDIKT HEFÐI BORGAÐ MIKLU MEIRA EF KRAFA HEIMDELLINGA ÆTTU AÐ GILDA
Talsmenn hinna ríku hafa haldið fram þeirri kenningu að fjármagnstekjuskattur ætti að taka mið af því að samanlagður tekjuskattur fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur ætti ekki að vera hærri en tekjuskattur atvinnutekna. Þetta hlutfall var 36% þegar lagður var skattur á vegna tekna ársins 2016, sem hér er fjallað um, á sama tíma og lægra þrep tekjuskattsins var 36,94%. En það eru tvö þrep í tekjuskattinum, hið hærra var 46,24% lagðist á tekjur yfir 834.707 kr. Ef fara ætti að kenningu Heimdellinga (sem er dellukenning, þar sem fyrirtæki eru sjálfstæður skattaðili, nýtur allskyns réttinda og er ekki aðeins eign eigenda hlutabréfanna, sem njóta síðan takmarkaðrar ábyrgðar gagnvart þessari eign sinni) þá hefði átt að vera tvö þrep í fjármagnstekjuskattinum; 21,18% og
32,80%. Ef þessi Heimdellingaaðferð hefði verið notuð hefði Benedikt borgað 52,4 m.kr. í skatta af tekjum sínum 2016 í stað 33,1 m.kr. Mismunurinn er 19,4 m.kr.. Það er skattaafslátturinn til Benedikts umfram ítrustu kröfur Heimdallar og annarra talsmanna hinna ríku.