- Advertisement -

Eyþór vill lækka skatta Davíðs

Eitt helsta kosningaloforð Eyþórs Arnalds og félaga hans á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er að fella niður fasteignagjöld á kjósendur, sjötíu ára og eldri.

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur hefur skoðað málið og komist að því að tekjulægstu hóparnir fá fasteignagjöld þegar niðurfelld að hluta eða að öllu leyti, og fá því ekkert af gjöfinni, einsog Haukur orðar þetta.

Á meðfylgjandi grafi sem Haukur vann kemur fram að kosningaloforðið gagnast helst og best þeim sem ríkastir eru. Þekktastur í þeim hópi er Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins, blaðsins þar sem Eyþór er skráður fyrir stærri eignarhlut en nokkur annar.

Hér er úttekt Hauks Arnþórssonar: „Eftirgjöf Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á fasteignagjöldum aldraðra er afar einkennilegt loforð í ljósi þess að fátækt er meðal tekjulægstu hópa þeirra. Einkennileg – vegna þess að tekjulægstu hóparnir fá fasteignagjöld þegar niðurfelld að hluta eða að öllu leyti – og fá því ekkert af gjöfinni.

Tölurnar byggja á gögnum frá Ríkisskattstjóra, Þjóðskrá og Hagstofunni og ættu að gefa allskýra mynd af stöðunni 2018.

Ef maður flokkar aldraða í 10 tekjuhópa – þá fá 3 tekjulægstu hóparnir ekkert, fjórði hópurinn 10.323 árlega og svo smá hækkar gjöfin uns hún verður að meðaltali 115.761 til tekjuhæsta hópsins; hann hefur um 1,1 milljón í mánaðarlaun.

Svona grímulaus gjöf innan skattkerfisins til þeirra tekjuhæstu er fáséð og hefur Eyþór Arnalds og hans fólk sennilega hrist af sér stuðning stórs hóps aldraðra í borginni með þessu. Það að auka misskiptingu með skattlagningu er afar sjaldgæft á Vesturlöndum – ef ekki einsdæmi.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: