Morgunblaðið í dag segir í frétt frá vangreiddum ríkisstyrkjum til fyrirtækja. Ekki fæst betur séð en Eyþór Arnalds hafi setið í stjórn eða stýrt tveimur þeirra fyrirtækja sem hafa ekki borgða ólöglega ríkisstyrki, að fullu eða að mestu.
„Tekist hefur að endurheimta tæpar 10 milljónir af um 35 milljóna króna fjárhagsaðstoð íslenska ríkisins vegna ívilnunarsamninga um nýfjárfestingar sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, lýsti ólögmæta haustið 2014. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ingva Más Pálssonar, skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, við fyrirspurn Morgunblaðsins.“
Þetta er bein tilvitnun í frétt í Morgunblaðinu í dag.
Í Moggafréttinni segir ennfremur: „Samtals fengust um 9,6 milljónir endurgreiddar og kom það allt frá einu fyrirtæki af þremur sem ríkið hafði veitt fjárhagsaðstoð eftir ívilnunarsamning, Becromal við Eyjafjörð vegna álþynnuverksmiðju. Engin endurgreiðsla fékkst frá tveimur öðrum fyrirtækjum sem fengið höfðu ívilnanir á þessum tíma, GMR stálendurvinnslu og Verne gagnaverum. Aðstoðin við fyrirtækin þrjú er metin á 34,8 milljónir króna. Fyrirmæli ESA vörðuðu fimm ívilnunarsamninga, en tveir þeirra, við Thorsil vegna kísilmálmverksmiðju á Þorlákshöfn og GSM vegna kísilmálmverksmiðju í Helguvík, urðu ekki að veruleika.“
Tvö fyrirtækjanna tengjast borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, Eyþóri Arnalds, það eru GMR stálvinnslan og Becromal.
Í frétt Moggans segir einnig: „Ríkisaðstoðin við Becromal nam í heild tæplega 25 milljónum króna. Aðstoðin við GMR vegna stálendurvinnslunnar á Grundartanga nam 7,1 milljón króna og við Verne gagnver á Reykjanesi 2,9 milljónum króna. Hvorugt síðarnefndu fyrirtækjanna endurgreiddi. GMR var tekið til gjaldþrotaskipta og ekkert fékkst upp í kröfu ríkisins í þrotabúið. Aðstoðin við Verne var metin innan svokallaðrar „de minimis“-aðstoðar, sem telst ekki tilkynningarskyld ríkisaðstoð. Sama er að segja um þann hluta aðstoðarinnar við Becromal sem ekki var endurgreiddur, rúmar 15 milljónir króna.“