Snilldarbrella hjá þeim á kostnað þeirra öryrkja sem verða fyrir þessum ömurlegu skerðingum.
Alþingi / „Nú hefur komið í ljós að skilaboð ríkisstjórnarinnar eru skýr: Lífskjarasamningarnir eru alls ekki fyrir þá sem eru á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins. Öryrkjar og eldri borgarar eiga engan rétt á lífskjörum eða samningum almennt. Öryrkjar og eldri borgarar eiga einir engan rétt á að fá kjaragliðnun undanfarinn áratug leiðrétta aftur í tímann. Nei, skilaboðin eru skýr: Étið það sem úti frýs og lifið áfram í fátækt og þá einnig sára fátækt í boði þessarar ríkisstjórnar.
Guðmundur Ingi Kristinsson sagði þetta á elduhússdegi Alþingis. Hann var ekki hættur: Lesið þetta:
„Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði að orðið hefði algjörlega einstök þróun á framlögum úr almannatryggingum á undanförnum árum, að þau hafi því sem næst tvöfaldast að raunvirði í útgreiðslum. En hvernig hefur þessi algjörlega einstaka þróun á framlögum úr almannatryggingum skilað sér í krónum, og það beint í illa götótta, keðjuverkandi skerðingarvasa þeirra verst settu í þjóðfélagi okkar? Jú, um 220.000 kr. til öryrkja eftir skatt og um 250.000 kr. á mánuði til eldri borgara eftir skatt. Það er algjörlega einstök þróun á framlögum úr almannatryggingakerfinu því að auðvitað er hægt að vera stoltur af þessum rausnarlegu upphæðum til framfærslu fyrir veikt fólk og verst settu eldri borgara landsins. Samanlagðar skerðingar til öryrkja og eldri borgara í almannatryggingakerfinu voru um og yfir 60 milljarða kr. 2019. Spáið í þessar tölur, 60.000 milljónir króna!“
Síðan benti þingmaðurinn á þetta:
„Ef lífeyrislaun almannatrygginga hefðu hækkun eins og lífskjarasamningarnir, og hvað þá ef kjaragliðnunin hefði einnig verið leiðrétt, væri þessi mánaðarupphæð ekki undir 300.000 kr. á mánuði eftir skatt fyrir öryrkja. Og ef svo væri, sem það er auðvitað ekki, væri það sko engin ofrausn. Allir flokkar hafa lofað að afnema krónu á móti krónu skerðinguna og ríkisstjórnarflokkarnir gerðu það með stæl með því að hafa bara 65 aura á móti 65 aurum og málið var leyst. Snilldarbrella hjá þeim á kostnað þeirra öryrkja sem verða fyrir þessum ömurlegu skerðingum.“
„Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast fyrir mannréttindum handa þessum hópi fólks og börnum þeirra og sjá til þess með öllum ráðum að þau geti lifað góðu og mannsæmandi lífi,“ sagði Guðmundur Ingi.
„Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast gegn fátækt og mismunun í öllum birtingarmyndum þeirra. Þegar ríkisstjórn á hverjum tíma vill ekki taka á þessum vanda veiks fólks verður þjóðin að senda skýr skilaboð um að fátækt á Íslandi, hvað þá sára fátækt, verði ekki liðin lengur.“