„Á hvítbók rétt á sér?“ Þannig spurði Brynjar Níelsson Sjáflstæðisflokki á Alþingi í gær og hélt áfram:
„Hún á auðvitað alveg jafn mikinn rétt á sér og hvað annað, en spurningin er: Hefur hún einhverja þýðingu? Eru breytingarnar svo hraðar og ráðum við sjálf svo miklu um þessar breytingar, hvernig þetta þróast og hvernig þetta verður? Það sem skiptir okkur aðalmáli er hvort við séum með samkeppnishæft fjármálakerfi. Er það hagkvæmt og skilvirkt?“
Að ganga of langt
„Þegar við búum til regluverk og veltum fyrir okkur hvaða reglur við eigum að hafa getum við spurt okkur hvort við göngum of langt. Göngum við svo langt að það geti ekki orðið hagkvæmt, skilvirkt og samkeppnishæft? Erum við svo brennd af hruninu að við göngum of langt í regluverkinu? Ég hef talsverðar áhyggjur af því. Það sem skiptir okkur mestu máli er að það geti þjónustað okkur af hagkvæmni og skilvirkni,“ sagði Brynjar.
Ríkisbankarnir voru lélegir
„Ég hef líka áhyggjur af þeirri framtíðarsýn sem ég veit að margir hafa í þessu ágæta húsi, að ríkið sé fyrirferðarmikið á fjármálamarkaði til framtíðar. Ég er með eldri mönnum á þinginu, í aldri, ekki í reynslu, og ég man alveg hvernig þetta var þegar ríkið átti alla stóru bankana. Þeir voru í raun og veru allir ónýtir, þjónustan léleg og kerfið óskilvirkt og skaðlegt. Við þurfum að slá alla varnagla en við verðum líka að hugsa um að kerfið þjónusti okkur eins og það á að gera,“ sagði Brynjar.