„Stórfyrirtæki, sem skila milljörðum í arð á ári, og eru m.a. í eigu ráðherra, hafa þegið ríkisaðstoð undir formerkjum veirunnar og komist upp með það. Ekki var stoppað í þann leka þegar svokallaðar „björgunaraðgerðir“ ríkisstjórnarinnar voru settar saman,“ skrifar Guðmmundur Franklín Jónsson, í Moggagrrein í dag.
„Á sama tíma og við fáum fréttir af samningslausum hjúkrunarfræðingum, sem tóku á sig launalækkun í miðjum veirufaraldri, berast tíðindi um launahækkanir forseta, ráðherra, þingmanna og ráðuneytisstjóra. Það versta er að þess háttar hegðun valdhafa er orðin svo greypt í íslensku þjóðarsálina að við erum hætt að kippa okkur upp við hana. Við erum hreinlega orðin samdauna,“ skrifar hann
„Það er ekkert sem segir að við eigum að sætta okkur við svona svínslega framkomu við okkar duglegasta fólk. Hjúkrunarfræðingar, sem vinna langar vaktir undir miklu álagi, eiga ekki að vera aftastir á listanum yfir launahækkanir frekar en aðrar stéttir sem svo sannarlega þurfa á hækkunum að halda. Þessu þurfum við að breyta og þetta eigum við að hætta að sætta okkur við.“
Guðmundur Franklín bætir við: „Hvert ríkisfyrirtækið á fætur öðru hefur í gegnum tíðina verið selt til vina og vandamanna ráðamanna og oft hefur legið í loftinu að söluverðið hafi verið allt of lágt, frá SR-mjöli til Borgunar. Borgun t.d. var félag í eigu Landsbankans sem var selt í lokuðu söluferli og voru kaupendur m.a. fjölskyldumeðlimir fjármálaráðherra sem keyptu stóran hlut. Borgun var svo seld skömmu síðar með miklum hagnaði og vakti það spurningar um hvort upprunalega söluverðið, það verð sem kom í hlut þjóðarinnar, hafi verið of lágt.“
Grein Guðmundar er lengri en þetta, en hér verður ekki hætt. Gott er bæta þessum kafla við:
„Ríkisstjórnin hefur nú sett af stað plön um að selja hlut í báðum bönkunum, var þetta gert með tveimur setningum í fjárlögunum sem samþykkt voru fyrir áramótin. Það fylgdi þó ekki sögunni að sala á bönkunum er afar óhagstæð fyrir þjóðina því lágt verð fæst fyrir banka um þessar mundir. Báðir bankarnir mala jafnframt gull fyrir þjóðarbúið og því er full ástæða til að flýta sér hægt í bankasölumálum. Segja má að veiran hafi í raun komið okkur til bjargar hvað bankasöluna varðar þar sem hún tafði söluna og gaf okkur gálgafrest til að kjósa aðra ríkisstjórn en þá sem hyggst fara illa með almannaeignir.
Dæmin um spillingu eru svo mýmörg að ekki gefst ráðrúm til að telja upp nema brot af þeim í þessari grein. Það er þó öllum ljóst að við getum ekki rekið þjóðfélagið með þessum hætti og því þurfum við öll að leggjast á eitt að stöðva þessa þróun og koma í veg fyrir spillingu. Grandskoða þarf hverja og eina athöfn ráðamanna og embættismanna og hvetja til opinnar umræðu í þjóðfélaginu um verk þeirra. Eins er lykilatriði að koma á fót gagnsæi hvar sem hægt er að koma því við svo þjóðin fái þær upplýsingar sem hún þarf og geti sjálf ákveðið hvar misbrestur hefur átt sér stað og hvar ekki. Við þurfum ekki og eigum ekki að kyngja spillingu hljóðalaust. Nú er kominn tími til að reka upp vein og segja nei, takk! Hingað og ekki lengra. Spillinguna burt!“