- Advertisement -

Erum með fordóma gagnvart eldra fólki

„Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort það samræmist mannréttindakafla stjórnarskrárinnar að nota aldur sem viðmið til að skerða réttindi.“

„Undanfarin misseri hefur verið mikil umræða í samfélaginu um hvers kyns fordóma. Ein tegund fordóma eru öldrunarfordómar, fordómar á grundvelli þess að einhver hafi náð tilteknum aldri og sé þess vegna öðruvísi, með aðrar þarfir, langanir eða getu, aðrar væntingar eða lífssýn,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson, alþingismaður og öldrunarlæknir.

„Öldrunarfordómar skaða okkur sem samfélag og gera lítið úr fólki. Þessu þurfum við að breyta. Íslenskt lagaumhverfi er fullt af vísunum í aldur, sumt er nauðsynlegt eins og t.d. verndandi ákvæði vegna æsku og þroska en annað er beinlínis skaðlegt eins og að ákvæði um aldur eigi að ráða því hvort menn geti haldið vinnu sinni, hvort þeir eigi rétt á þjónustu o.s.frv.“

Hvað með stjórnarskrána?

„Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort það samræmist mannréttindakafla stjórnarskrárinnar að nota aldur sem viðmið til að skerða réttindi eins og atvinnuréttindi, hvort það sé réttlætanlegt að nota aldur sem aðgöngumiða að þjónustu eða til að hindra að menn fái þjónustu.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ólafur Þór Gunnarsson.
„Hversu sanngjarnt er það að við 70 ára aldur sé ekki lengur þörf fyrir þekkingu eða reynslu einstaklings en að hún sé fyrir hendi deginum áður?“

Allar slíkar vísanir ganga út frá því að það sé málefnalegt að setja mælistiku á gildi einstaklings á grundvelli aldurs. Slíkt ýtir undir fordóma gagnvart þeim sem eru eldri og við eigum að hætta því. Hvernig má það t.d. vera að fullfrískur 68 ára einstaklingur sem fatlast vegna sjúkdóma eða slysa eigi að búa við önnur skilmerki hvað varðar þjónustu en sá sem er 66 ára?

Hversu sanngjarnt er það að við 70 ára aldur sé ekki lengur þörf fyrir þekkingu eða reynslu einstaklings en að hún sé fyrir hendi deginum áður? Væri ekki eðlilegra að slíkt væri ákveðið af einstaklingnum sjálfum eða með öðrum málefnalegri aðferðum en þeirri að einhver hafi fæðst á einhverjum tilteknum degi?

Við eigum að takast á við það verkefni að útrýma gamaldags aldursviðmiðum. Þannig bætum við samfélagið og tryggjum að fólk fái notið sín óháð aldri og lagt til samfélagsins meðan það sjálft hefur til þess vilja og getu.“

Byggt á þingræðu Ólafs Þórs.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: