„Góð kjör og góð starfsaðstaða hjúkrunarfræðinga er grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati í þingræðu í gær, á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga
„Hjúkrunarfræðingar eru grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi. Hjúkrunarfræðingar hafa staðið vaktina fyrir okkur í gegnum þennan heimsfaraldur og hjúkrunarfræðingar hafa staðið vaktina fyrir okkur í gegnum súrt og sætt, herra forseti. Þrátt fyrir þetta hefur Landspítalinn þurfti að búa við stífar aðhaldskröfur ár eftir ár. Þrátt fyrir þetta hefur heilbrigðiskerfið okkar verið vanfjármagnað ár eftir ár. Og þrátt fyrir þetta erum við með fjármálaráðherra sem neitar ár eftir ár að semja við hjúkrunarfræðinga um sjálfsagða og eðlilega kjarabót — og neitar því enn,“ sagði Þórhildur Sunna.
„Við lifum á tímum sem kalla á samfélagslega sjálfsskoðun. Við höfum nú tækifæri sem samfélag til að líta vel og rækilega í spegil og spyrja okkur hvort verðmætamat samfélagsins endurspegli raunveruleg verðmæti, hvort þetta sé samfélagið sem við viljum vera til framtíðar, hvort við höfum kannski villst af leið í gildismati okkar eða réttara sagt hvort stjórnvöld endurspegli raunverulegt gildismat og verðmætamat þjóðanna.“