- Advertisement -

Erum í bandalagi um kjarnavopn

Andrés Ingi Jónsson:
Ísland þarf að nota rödd sína til að hafna kjarnavopnum og meðan við erum innan NATO þá þýðir það að hafna því að NATO normalíseri kjarnavopn.

„Það er ólíkt hvernig við höldum upp á tyllidaga. Í dag er alþjóðlegur dagur friðar hjá Sameinuðu þjóðunum. Vladimir Pútín ákvað að nýta tækifærið og henda aðeins olíu á eldinn í stríði sínu gegn fólkinu í Úkraínu og lýsti því yfir að hann ætlaði að kalla út varalið í rússneska herinn. Hann gerði gott betur og minnti heiminn á að hann ætti kjarnavopn og væri sko ekki hræddur við að beita þeim, bætti meira að segja við í yfirlýsingunni, svo það færi ekki á milli mála, að hann væri ekki að blöffa. Staðan er nefnilega sú að meðan kjarnavopn eru samþykkt sem hluti af heimi mannfólksins þá getum við alltaf staðið frammi fyrir þeim veruleika að brjálæðingar eins og Pútín búi yfir þeim og geti beitt þeim. Það er staða sem við getum ekki sætt okkur við,” sagði Andrés Ingi Jónsson Pírati á Alþingi.

Næst sagði hann: „Hvað kemur þetta litla Íslandi við? Við erum nefnilega í bandalagi utan um kjarnavopn. Atlantshafsbandalagið hýsir hluta þeirra ríkja sem búa yfir þessum gereyðingarvopnum og er hluti af þeim hagsmunaöflum sem berjast gegn beru banni við kjarnavopnum í heiminum. Fyrr á árinu var haldinn fyrsti aðildarríkjafundur samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum og þar skrópaði Ísland eins og megnið af NATO-ríkjunum.

“Þetta getur ekki gengið lengur, herra forseti. Ísland, sem segist vilja tala fyrir friðsamlegum lausnum, þarf að nota rödd sína til að hafna kjarnavopnum og meðan við erum innan NATO þá þýðir það að hafna því að NATO normalíseri kjarnavopn. Það geta fulltrúar okkar innan NATO gert án þess einu sinni að segja sig úr NATO, einfaldlega með því t.d. að skrifa ekki undir yfirlýsingar þar sem sagt er að kjarnavopn séu kjarninn í varnarstefnu bandalagsins, eins og gerðist á leiðtogafundi í vor. Hér getur Ísland gert betur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: