Stjórnmál

Erum eina þjóðin…

By Miðjan

April 06, 2021

„Mig langar aðeins til að ræða samspil verðbólgu, atvinnuleysis, vaxta og gengis krónunnar okkar. Við erum eina þjóðin á Vesturlöndum þar sem Covid hefur leitt til aukinnar verðbólgu. Við búum við það að atvinnuleysi virðist því miður vera nálægt því að festa sig í sessi. Við erum með mestu aukningu atvinnuleysis af OECD-ríkjum. Og vextir eru enn hærri en í samanburðarlöndunum þrátt fyrir að vera í lágmarki,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokkformaður Viðreisnar, í umræðu um fjármálaáætlun næstu ára.

„Á sama tíma verð ég að segja að það kemur á óvart að sjá vantraustsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á krónuna með frumvarpi um gjaldeyrismál, nýju frumvarpi þar sem festa á í sessi mjög víðtækar heimildir til inngripa og hafta, þeim víðtækustu sem þekkjast í hinum vestræna heimi. Það er inngrip sem ráðherrann er þá kominn með án þess að þurfa að eiga pólitískt samtal hér. Þá erum við svolítið komin að því að á sama tíma og það er erfitt, meira að segja fyrir hörðustu varðmenn krónunnar, að túlka þetta frumvarp öðruvísi en sem vantraust á þessa sömu krónu er verið að koma í veg fyrir að hér eigi sér stað málefnaleg umræða um þetta risamál. Að auki hefur verið tekin ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar um erlent lán upp á mörg hundruð milljarða með þeirri gengisáhættu sem við þekkjum. Við vitum hvar hún lendir ef illa fer,“ sagði þingflokksformaður Viðreisnar.