„Eru Vinstri græn enn á móti hvalveiðum?“ Þannig spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi, rétt í þessu.
Þorgerður Katrín spurði áfram: „Munu Vinstri græn beita sér innan ríkisstjórnar til að stöðva nýjar veiðar stórhvela sem munu hefjast núna í júní, m.a. veiðar á allt að 209 langreyðum sem eru næststærsta núlifandi dýrategundin og er á alþjóðlegum válistum. Ætla Vinstri græn að beita áhrifum sínum innan ríkisstjórnar til að stöðva veiðarnar?“
Og að endingu: „Styðja Vinstri græn endurmat á stefnu Íslands þegar kemur að hvalveiðum og munu þau beita sér fyrir slíkri endurskoðun? Ég vil vekja athygli hæstvirts forsætisráðherra á því að það liggur fyrir þingsályktunartillaga hér á þinginu.“
Katrín sagði stefnu Vinstri grænna þá að þau hafi talið að þessar veiðar séu ekki sjálfbærar en við áttum okkur hins vegar á því að þær veiðar sem fyrirhugaðar eru í sumar eru síðasta ár veiða á fimm ára tímabili sem ákveðið var 2013 með útgefinni reglugerð þá.
En svo þetta: „Við aðhyllumst ekki stöðugar kollsteypur með hverri ríkisstjórn. Hins vegar liggur það fyrir, og svarið getur ekki orðið skýrara, að áður en ný ákvörðun verður tekin þarf að fara fram það mat sem ég nefndi hér áðan sem byggist á sjálfbærni.“