Samþjöppun í sjávarútvegi hefur viðgengist lengi, og gerir enn:
Beðið er að Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sýni á spilin, sýni hvaða breytingar hann ætlar að gera á lögum um stjórn fiskveiða. Vitað er að núverandi fyrirkomulag gildir aðeins tímabundið. Ný lög, með breyttum veiðigjöldum eða afnotagjöldum, taka gildi á næsta fiskveiðiári. Annað er ómögulegt. Frá hruninu, 2008, hefur hagur sjávarútvegsins aukist umtalsvert. Hágengisstefnan var erfið, en nú er allt annað uppi á teningnum. Fyrrverandi ríkisstjórn var oft sökuð um að vera sjávarútveginum fjandsamleg.
„Þessu er alltaf stillt upp einsog fólk sé vinir eða óvinir útgerðarinnar. Sumum hentar að leggja þetta þannig upp ,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar hún var spurð um veiðigjöldin í þættinum Sprengisandi sunnudaginn 16. febrúar s.l.
Minni útgerðir í hættu
Útgerðin segir þá aðferð sem er notuð við útreikninga og álagningu veiðigjaldsins hafi skaðað lítil og meðalstór fyrirtæki mjög. Víst er að þeim fækkar og sú þróun er hafin.
Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, hefur sagt að leysi menn ekki úr þeirri miklu óvissu sem nú sé í sjávarútvegi fækki einstaklings og minni útgerðum verulega á næstu misserum. Dæmi um þá er kaup Ísfélagsins í Vestmannaeyjum á skipinu Dala-Rafni ásamt aflaheimildum en Dala-Rafn á að baki fjögurra áratuga farsælan rekstur. Njáll Ragnarsson, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar Vestmannaeyja sagði að eigendaskipti hafi orðið á nokkrum skipum í Eyjaflotanum undanfarin misseri og sagði Njáll þetta: „Menn þurfa að loka augunum og stinga höfðinu býsna djúpt í sandinn til þess að sjá ekkert samhengi á milli veiðigjalda annars vegar og þessa. Þessar litlu útgerðir berjast í bökkum við að halda áfram rekstri.“
„Ég held að kerfið, sem við höfum starfað eftir, ýti undir samþjöppun. Sú þróun byrjaði ekkert í fyrra með samþykkt veiðigjalda. Við höfum því miður ekki náð samkomulagi um hvernig er hægt að styrkja stöðu minni útgerða. Þar bendir hver á annan. Þetta er erfitt viðfangsefni. Inn í það blandast tilfinning fólks gagnvart því þegar kerfinu var komið á í upphafi og kvótunum var úthlutað, og margir eru enn reiðir yfir því og svo eru aðrir sem hafa keypt kvóta og þeir segja, ég keypti minn kvóta og á að refsa mér fyrir það? Uppbyggingin býður upp á samþjöppun og þeir sem tala mest fyrir kerfinu segja kerfið stuðla að hagræðingu í sjávarútvegi. Og það hefur áhrif á minni útgerðirnar,“ segir Katrín.
„Þeir segjast hafa varað við að lögin gætu leitt til samþjöppunar. Það gerðum við líka, þegar málið var til umfjöllunar í veiðigjaldanefndinni. Þá var lagt til um að skoða stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta er einsog við sjáum oft í lagasetningu hér, að það verður að reyna á framkvæmdina betur og laga hana eftir þörfum.“
Hún bendir jafnframt á að sérstöku veiðigjöldin hafi verið lækkuð og því ekki hægt að kenna þeim um.
Bíða eftir stjórnvöldum
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna segir á heimasíðu sambandsins, brýnt að tillögur um sanngjarnari útfærslu veiðigjaldsins fari að berast frá yfirvöldum, slæmt verði ef ekki náist að afgreiða tillögurnar á vorþingi. Fyrirkomulag veiðigjaldsins hafi nú þegar haft verulega neikvæð áhrif á fjölda útgerðarfyrirtækja og þarfnist endurskoðunar.
„Við sjáum stóru útgerðirnar vera að borga eigendum sínum gríðarlega háan arð,“ segir Katrín og bendir á að tekjutap ríkissjóðs var um sex milljarðar vegna lækkunar á veiðigjöldum.
Áfram um sjávarútveg og Katrínu Jakobsdóttur. Talið berst að góðri stöðu margra fyrirtækja, framsækni og nýsköpun. „Það er heilmikil nýsköpun í sjávarútvegi. Þessu er alltaf stillt upp einsog fólk sé vinir eða óvinir útgerðarinnar. Sumum hentar að tala um leggja þetta þannig upp. Staðreyndin er sú að þessi ágætu fyrirtæki nýta auðlind sem stendur í lögum stjórn fiskveiða, að eru sameign þjóðarinnar. Fyrir því finnur almenningur ekki. Þetta er ekki einsog hver önnur sjoppa, þar sem þú greiðir bara tekjuskatt. Fyrirtækin hafa rétt til að yrkja auðlindina og það er eðlilegt að greiða gjald fyrir það. Það er bara ekki hægt að segja að þetta snúist um hvort fólk er með eða á móti sjávarútvegi, sem er undirstöðugrein í íslenskku samfélagi. Á það föllumst við öll, þetta er lifibrauðið okkar. Niðurstaðan er sú að stjórnmálamenn hafa ekki komið sér saman um hvað á að borga fyrir að nýta auðlindina.“
Hvað með fjárfestingarnar?
„Það er búið að fara með allskyns rangfærslur, einsog ekkert hafi verið fjárfest í sjávarútvegi vegna óstöðugleika í lagaumhverfi. Það er bara ekki rétt. Það er búið að fjárfesta fyrir tugi milljarða,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.
Milljarða álögum létt af fyrirtækjum
Ekki er fjarri lagi að líta rúm tuttugu ár til baka. Þá var vandi í ríkisbúskapnum. Eitt helsta úrlausnarefnið var staða sjávarútvegsins. Þá þótti nær vonlaust að öllum sjávarútvegsfyrirtækjum landsins yrði bjargað. Kíkjum til fortíðar, aftur til ársins 1992.
Meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til er stofnun Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Sjóðnum verða lagðir til fjórir milljarðar, afborgunarlausir i þrjú ár. Sjóðnum er ætlað kaupa upp fiskiskip, fiskvinnslufyrirtæki og fleira. Eins er ætlast til að sveitarfélög skeri niður hafnargjöld, til að létta útgerðum róðurinn.
Allt sem stendur hér að ofan er satt og rétt. Ríkisstjórnin samþykkti þessar aðgerðir og fleiri, hún gerði það vegna þrenginga í þjóðarbúskapnum og ekki síst vegna þess hversu illa sjávarútvegurinn stóð. En hér er ekki skrifað um ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, heldur fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks.
Ástæða þess að þetta er rifjað upp nú er sú að sýna hvernig komið var fyrir aðeins rúmum tuttugu árum. Þá var, þrátt fyrir miklar aðgerðir, talið vonlaust að bjarga öllum sjávarútvgsfyrirtækju, þjófélagið réð ekki við það verkefni.
Áður en við skoðum sjávarútveginn ögn betur skulum við skoða aðrar aðgerðir.
Á þessum tíma vakti athygli margra að ríkisstjórn Davíðs hefði stofnað sjóð til bjargar sjávarútvegi, en það hafði hann fordæmt hjá fyrri ríkisstjórn.Ólafur Ragnar Grímsson, var þá formaður Alþýðubandalagsins, og hann sagði þetta merkilegt fyrir þá sök að þetta væri dagurinn sem Davíð Oddsson hóf sjóðasukkið.
Hátekjuskattur á hálfa miljón
„Hátekjuskatturinn verður með þeim hætti að einstaklingar greiði 5 prósent af þeim tekjum sem eru yfir 200 þúsund á mánuði og hjá hjónum eru mörkin við 400 þúsund krónur. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að hátekjuskatturinn verði í gildi í tvö ár.“ Þetta er orðrétt tilvitnun í frétt í DV frá nóvember 1992. Framreiknuð eru viðmiðunarlaunin 500.000 þúsund hjá einstaklingi og milljón hjá hjónum.
Ríkisstjórnin ákvað einnig að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti og fækka undanþágum, einnig að skerða barnabætur og vaxabætur, hækka bensíngjald og fleira og fleira.
Ekki voru allir vissir um að þetta allt myndi duga til.
„Atvinnuleysi mun halda áfram að vaxa, það er ekkert í þessum aðgerðum sem dregur úr því,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson og sagði að nú væri gamli verðbólguhugsunarhátturinn byrjaður aftur, verðhækkana-, kollsteypu- og gengisfellihngarhugsunarhátturinn hefði byrjað aftur með þessum aðgerðum. Ólafur Ragnar sagði að Davíð Oddsson hefði átt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.
Og hvað svo?
Engin ástæða er til að ætla að við þurfum í næstu framtíð að glíma við vanda einsog þann sem var árið 1992. Það er rétt, sem haft er eftir Katrínu Jakobsdóttur, hér að framan að samþjöppun í sjávarútvegi hefur til þessa verið talin kostur, eitt helsta einkenni kvótakerfisins, og því er ekki að undra að hún bendi á að þeir sem mest hafa lofað kerfið finni manna mest að því að útgerðum fækki og ekki síst skipum.
Hvað skref verða stigin næst skýrist vonbráðar. Unnið er að breyttu fyrirkomulagi, ný lagafrumvarpi, innan atvinnuvegaráðuneytisins. Þar til það opinberast, er bara eitt að gera, bíða.
Höfundur: Sigurjón M Egilsson
Greinin birtist í 2. tölublaði af Útvegsblaðinu en hægt er að lesa það hér