Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru á móti sautján prósent lækkun leikskólagjalda með þeim rökum að þörf sé á að; „…að bæta fjársvelta leikskóla borgarinnar.“
Þeir segja að viðhaldi fjölmargra leikskóla og leikskólalóða sé mjög ábótavant, aðstæður starfsmanna séu víða ófullnægjandi og fjárveitingar til fæðiskaupa séu skornar við nögl. Sjálfstæðismenn vilja frekar nota peninga til umbóta en slá af gjöldunum.
Framsókn og flugvallavinir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Vilji er til að styðja við barnafjölskyldur á öllum skólastigum, „…en það er mat okkar að forgangsröðun hér sé röng og meirihlutinn sé að reyna að slá pólitískar keilur,“ segir í bókun. Og áfram segir: „En síðustu lækkunartilburðir meirihlutans á leikskólagjöldum voru aðeins til málamyndalækkanir sem skiluðu sér ekki til barnafjölskyldna þar sem fæðisgjald var hækkað samhliða. Á meðan að meirihlutinn getur ekki sett tillöguna fram með þeim hætti að þeir tryggi að fæðisgjöld hækki ekki samhliða, þá getum við ekki samþykkt hana.“
Lækkunin var samþykkt með atkvæðum meirihlutans.