- Advertisement -

Eru konur konum verstar?

Atvinnurekendur fara illa með láglaunakonur.

Jónann Þorvarðarson skrifar:

Opinberar upplýsingar staðfesta að atvinnurekendur fara illa með láglaunakonur. Mikil fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum hefur engu breytt. Staðan hefur versnað.

Þeim fjölgar sem leita aðstoðar hjá VIRK eða um 6% á síðasta ári. Mun fleiri bætast í hóp þeirra sem þurfa endurhæfingu en útskrifast. Munar hér hvorki meira né minna en 43%. Af öllum umsækjendum hjá VIRK voru 66% konur. Tölur sýna síðan að 52% allra í endurhæfingu hjá VIRK er láglaunafólk.

Ávinningurinn af endurhæfingu hjá VIRK hefur verið metinn til fjár. Hann er sagður vera 28 milljarðar á umliðnum tveimur árum. Hin hlið ávinningsins er að um er að ræða tapaðar tekjur eða aukinn kostnað hjá atvinnulífinu. Ef úrvinda launþegar hefðu ekki þurft að leita sér aðstoðar hefði fjárhæðin sparast að mestu.

Þetta er mjög há fjárhæð. Við hana bætist rekstrarkostnaður VIRK upp á 5 milljarða á sama tímabili. Samtals eru þetta 33 milljarðar í fórnarkostnað vegna láglaunastefnu atvinnurekenda. Þetta samsvarar gróflega að hagnaður fyrirtækja er 4% lægri en ella.

Á ferðinni er alvarleg hugsanavilla hjá atvinnurekendum. VIRK ræðst ekki að rótum vandans heldur tekur á afleiðingum láglaunastefnu atvinnurekenda. Stefna sem bitnar allra mest á konum, sjálfu fjöreggi þjóðarinnar. Á ferðinni er vítahringur sem fæðir sjálfan sig.

Væri ekki ráð að nýta fjármunina í forvörn í formi lágmarkslauna sem duga til framfærslu og vel það. Þannig aðgerð myndi einnig uppfylla draum atvinnurekenda um hærri framlegð og meiri gróða. Ánægðari starfsmenn auka framlegð. Núverandi láglaunastefna býr til alvarleg heilsuvandamál. Vandamál sem hækkar verðlag í landinu og vexti. Það þarf hugarfarsbreytingu hjá atvinnurekendum.

Það er athyglisvert að skoða skipan stjórnar fjölmargra hagsmunasamtaka atvinnurekenda. Konur eru um og yfir 40% stjórnarmanna. Þar er launastefna atvinnurekenda mótuð. Er ekki tímabært að afnema láglaunastefnuna sem bitnar svona grimmilega á konum. Eða stendur fleyga setningin óhögguð um að konur eru konum verstar.


Auglýsing