Eru hreppaflutningar eina lausnin?
Guðmundur Ingi hefur áhyggjur. Svandís segir allt stefna til betri vegar.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, kom, sem oft áður, inn á málefni þeirra sem höllum fæti standa, á Alþingi.
„Hvað eru margir makar að bugast við umönnun veikra maka án hjálpar? Eru hreppaflutningar eina lausnin? Það er fáránleg lausn og það er lausn sem er ekki í boði vegna þess að við verðum að hugsa um þetta. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að árið 2030 mun eldri borgurum hafa fjölgað úr 42.000 í yfir 60.000, hefur fjölgað um helming,“ sagði hann í ræðustól Alþingis.
„Og ég spyr ráðherrann: Er þetta ásættanlegt? Ætlar hún að sjá til þess að þessi tíu dvalarrými verði nýtt? Þarna þarf ekki að byggja húsnæði heldur er eingöngu um kostnað að ræða. Það er yfirfullt á bráðamóttöku Landspítalans. Er eina lausnin að fara með heilabilaða þangað og er einhver lausn í sjónmáli um að samið verði við bæjarstjórn Hafnarfjarðar um að gera eitthvað í þessum málum strax?“
Svandís Svavarsdóttir svaraði meðal annars að núna“ „…um síðustu áramót ákveðið að auka fjárveitingu um 130 milljónir til að efla heimahjúkrun. Það er úrræði sem við þurfum að efla verulega og það er mjög mikilvægt að koma á fót sérhæfðri heimahjúkrun við aldraða og tryggja áframhaldandi styrkingu heimahjúkrunar í takt við áherslur yfirvalda um að styðja við sjálfstæða búsetu.“
Guðmundur Ingi kom aftur í ræðustól og sagði þá:
„En það sem er alvarlegast í þessu, sem mér finnst gleymast, er það álag sem lagt er á maka viðkomandi. Og hvað erum við að gera með því? Jú, við erum að ýta vandanum á annan aðila sem síðan veikist og það veikir aftur kerfið. Það er engin lausn. Ef þetta snýst um lausn við Sjúkratryggingar Íslands þá bara leysum við það, göngum í það. Þörfin er alger og það verður eitthvað að gera. Við verðum að hætta hreppaflutningum. Hreppaflutningar eru ekki lausnin á vandanum sem skapast vegna heilabilunar. Heilabilað fólk þarf að vera nálægt sínum nánustu og við verðum að sjá til þess að það fái viðeigandi þjónustu í nærumhverfi.“
Og Svandís svaraði til dæmis svona: „Á næstu tveimur árum erum við að fjölga hjúkrunarrýmum um tæp 200 rými, flest á höfuðborgarsvæðinu. Hafinn er undirbúningur fyrir 206 ný hjúkrunarrými í viðbót og þar að auki eru uppi áform um byggingu 266 nýrra rýma til viðbótar á næstu árum. Þannig að við látum virkilega hendur standa fram úr ermum í því að fjölga hjúkrunarrýmum, ekki síst þeim sérhæfðu rýmum og dagdvalarrýmum sem hér er rætt um.“