Sérkennileg umræða varð á Alþingi í gær. Þá tókust á Arndís Anna Kristínardóttir Pírati og Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki.
AAKG:
„Ég kem hérna upp í tilefni ræðu háttvirts þingmanns Diljár Mistar Einarsdóttur hérna rétt áðan. Ég vil byrja á að nefna að það skýtur skökku við að ræða efnislega um mál sem er á dagskrá næst á eftir þessum dagskrárlið og ræða það undir dagskrárlið þar sem ekki er hægt að koma í andsvör og sérstaklega hvimleitt þar sem háttvirtur þingmaður fór með mjög rangt mál í ræðu sinni. Það er alls ekki þannig að reglur og lög séu eins á öllum Norðurlöndunum og það er enn síður svo að þetta frumvarp sem við erum að fara að ræða hér á eftir snúist um það að færa okkar reglur nær Norðurlöndunum. Um þær er mjög deilt þannig að það var ekki rétt. Þá vil ég líka í því ljósi benda á það að allir umsagnaraðilar nema einn eða tveir, hátt í 20 umsagnaraðilar um þetta frumvarp gagnrýna það og eru mótfallnir því. Þannig að þegar við erum að tala um að fíflunum fjölgi í kringum okkur er og þá eigum við að líta í eigin barm þá er það kannski meirihlutinn af þessu þingi sem ætti að líta í eigin barm.“
DME:
„Það er ótrúlega ánægjulegt að þeir sem nota liðinn fundarstjórn og störf þingsins bara með hárréttum hætti komi hérna upp til að vanda um fyrir okkur hinum. Ég þakka háttvirtum þingmönnum kærlega fyrir það. Án þess að ætla að fara í efnislegar hártoganir um útlendingalöggjöfina, þar sem háttvirtir þingmenn eru enn á öndverðum meiði þrátt fyrir að hafa skeggrætt málið, ekki bara í tvo eða þrjá daga eða í tveimur umræðum heldur í fjölmörg skipti, þá spörum við það kannski bara fyrir efnislega umræðu eins og hv. þingmenn komu inn á.
Hins vegar er auðvitað rangt með farið þegar háttvirtur þingmaður kemur hingað upp og sakar mig um að hafa kallað háttvirta þingmenn fífl og fávita. Ég átta mig á því að skriflegt inntak ræðunnar er ekki komið á netið en hv. þingmanni er í lófa lagið að hlusta á upptökuna og heyra þar hvaða ummæli ég hafði uppi. Ég vænti þess að fá afsökunarbeiðni frá háttvirtum þingmanni varðandi þessi ummæli því að ég tók sérstaklega fram að þessi umræða hefði verið góð og gagnleg og að þið væruð ekki — ekki að ég þurfi að taka það fram — fífl og fávitar. Þetta var nú meira í gamni sagt heldur en annað.