„Eru í besta falli popúlistar“
Ritstjóri Fréttablaðins sendir nýrri forystu í verkalýðshreyfingunni tóninn. Segir þau vera þjóðfélaginu hættuleg.
Hörður Ægisson, sem er einn af ritstjórum Fréttablaðsins, skrifar leiðara dagsins í blaðinu. Enn finnur hann að stöðu stærstu stéttarfélaga landsins. Hörður hefur áður efast um umboð þeirra Ragnars Þórs Ingólfssonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanna VR og Eflingar.
„Stærstu verkalýðshreyfingar landsins voru teknar yfir, án mikillar mótstöðu, af byltingaröflum sem þykjast bera fyrir brjósti velferð hins venjulega launamanns í komandi kjarasamningalotu. Ekkert gæti verið jafn fjarri sanni,“ skrifar hann.
Hörður hefur ekki mikið álit á þeim og skrifar: „Staðreyndin er sú að forystumenn samtakanna eru í besta falli popúlistar sem tala fyrir gamalkunnum leiðum sem munu valda miklum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og um leið hagsmuni heimila og fyrirtækja nái þær fram að ganga. Það eru hagsmunir allra sem vilja byggja upp raunverulega hagsæld til lengri tíma á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis og lægri vaxta að koma í veg fyrir þá niðurstöðu. Takist það ekki er vá fyrir dyrum.“
Ragnar Þór var gestur í þættinum Annað Ísland á Útvarpi Sögu í gær. Þar talaði hann mjög ákveðið að nú séu nýir tímar í baráttu launafólks. Fjarlægðin milli skoðana Ragnars Þórs og Harðar ritstjóra er svo mikil að hún er ekki mælanleg. Ragnar Þór nefndi mörg dæmi þar sem honum þykir forysta verkalýðshreyfingarinnar hafa brugðist umbjóðendum sínum.