Páll Magnússon, fráfarandi þingmaður, skrifar langa grein í Moggann í dag. „Sjálfstæðisflokkur í sjálfheldu?“ Hann veltir fyrir sér stöðu flokksins í dag og leitar skýringa. Hann nefnir nokkrar. Hér staldrað við í kaflanum um klofninga.
„Fyrst er auðvitað til að taka að flokkurinn hefur klofnað; ekki bara einu sinni heldur í raun tvisvar á síðustu fimm árum. Beint út úr Sjálfstæðisflokknum klofnaði Viðreisn sem bauð fyrst fram 2016 – fékk 11% fylgi og 7 þingmenn. Miðflokkurinn bauð svo fram 2017 og fékk þá nákvæmlega sama fylgi og Viðreisn árið áður – 11% og 7 þingmenn,“ skrifar Páll. Og áfram:
„En af hverju nefni ég Miðflokkinn hér – klofnaði hann ekki út úr Framsóknarflokknum? Jú, en bara að nafninu til. Framsókn tapaði engu fylgi og engum þingmanni með tilkomu Miðflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hins vegar 5 þingmönnum þegar Miðflokkurinn bauð fyrst fram. Nú er samhengið auðvitað ekki svo einfalt að Miðflokkurinn hafi fengið allt sitt fylgi frá Sjálfstæðisflokknum – aðrar hreyfingar og tilfærslur á milli flokka eru auðvitað í gangi líka. En þetta er engu að síður „nettó“ niðurstaðan: Framsókn tapaði engum þingmanni til Miðflokksins en Sjálfstæðisflokkurinn fimm.
Fyrir utan fylgistapið sem varð raunin við þennan klofning má segja að í kjölfarið hafi fylgt ákveðin pólitísk sjálfhelda. Sjálfstæðisflokkurinn er því miður ekki lengur hin stóra breiðfylking borgaralegra afla á Íslandi. Hann rúmar ekki lengur allt borgarlega sviðið frá frjálslyndi til íhaldssemi eins og hann hefur gert allar götur frá stofnun 1929, einmitt á grunni tveggja flokka – Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins.
Með talsverðri einföldun má segja að með þessum klofningi hafi brotnað af báðum endum Sjálfstæðisflokksins; „frjálslyndismegin“ með Viðreisn og „íhaldsmegin“ með Miðflokknum. Þarna á milli vandræðast flokkurinn núna og veit varla í hvorn fótinn hann á að stíga. Hræddur um að ef stigið er í íhaldsáttátt þá tapist enn meira fylgi frjálslyndismegin – og öfugt,“ segir í þessum kafla söguskýringa Páls Magnússonar. Og margt er eftir.