„Jafnframt er verið að gefa í skyn að alþingismenn séu aular,“ skrifar varaþingmaðurinn Vilhjálmur Bjarnason í nýrri Moggagrein. „Kann að vera að einhverjir séu það en alls ekki í sama mæli og forsetaframbjóðendur, sem tjá sig um skapandi stjórnskipunarrétt.“
Vilhjálmur gerir alltof mikið úr orðum Gúnda, Guðmundar Franklín Jónssonar, sem beið afhroð í forsetakosningunum um liðna helgi.
„Langavitleysa síðasta árs á Alþingi fjallaði um orkumál,“ skrifar Vilhjálmur. „Umræða um orkumál fór langt umfram það sem nokkur maður skyldi. Einföld atriði, eins og það að Orkustofnun voru færðar valdheimildir til neytendaverndar, urðu að föðurlandssvikum og að „kröfu um að Landsvirkjun“ yrði seld, og að hugsanlegur kaupandi yrði fjármálaráðherra eða skyldmenni hans,“ bendir hann á.
Enn að Gúnda og orðum hans: „Svör einstakra frambjóðenda verða helst túlkuð á þann veg að í landinu eigi að verða tvær ríkisstjórnir, önnur fjölskipuð í skjóli einhvers meirihluta 63 kjörinna þingmanna, og hin sem skipuð er einum forseta sem kann að sitja með vald 63 alþingismanna á einni hendi. Það þarf ekki einu sinn atbeina forseta til að mynda ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokka geta leyst vandamál stjórnarmyndunar sín á milli, að teknu tilliti til þingræðisreglu. Og tilkynnt forseta niðurstöðu sína.“