- Advertisement -

Erlendar stuttar fréttir

Reiði í Argentínu vegna greiðslufalls

Ráðamenn í Argentínu saka bandarísk stjórnvöld um að bera ábyrgð á því að ríkissjóður landsins sé ógjaldfær eftir að samningaviðræður við erlenda kröfuhafa runnu út í sandinn. Þeir hyggjast leita réttar síns fyrir alþjóðlegum dómstólum.

Argentína er enn að vinna úr afleiðingum þess að ríkisjóðurinn lenti í greiðsluþroti árið 2001. Þarlend stjórnvöld hafa í mörg ár reynt að semja við bandaríska vogunarsjóði, sem eignast hafa kröfurnar á ríkið. Í nótt varð ljóst að ekki tækist að semja við hluta þeirra áður en frestur bandarískra dómstóla rynni út. „Nú vil ég árétta það sem þegar er orðið opinbert, að hrægammasjóðirnir eru ekki tilbúnir til að veita þessa frestun, þeir neita að veita okkur þennan greiðslufrest,“ sagði Axel Kicillof, efnahagsmálaráðherra Argentínu, þegar staðan var ljós.

RÚV greindi frá.

Fjölmargir létust í gassprengingum í Tævan

Fimmtán létust og á þriðja hundrað slösuðust í gassprengingum í hafnarborginni Kaohsiung í Tævan í kvöld. Fjölmargar sprengingar urðu þegar leki kom að gasleiðslum.

Sprengingarnar voru svo öflugar að vegir klofnuðu og bílar þeyttust í loft upp. Sjónarvottar sögðu mikið eldhaf hafa myndast við sprengingarnar, en þær náðu yfir næstum þriggja ferkílómetra svæði.

RÚV greindi frá.

Rannsóknarmenn komust að flaki MH17

Alþjóðlegir sérfræðingar komust í dag að flaki malasísku farþegaþotunnar sem fórst í Úkraínu fyrir réttum tveimur vikum. Rannsókn á flakinu hefur tafist vegna tíðra bardaga á svæðinu.

Rannsóknarmenn frá Hollandi og Ástralíu, auk sérfræðinga Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) hafa komist að flaki malasísku farþegaþotunnar, sem talið er að hafi verið skotin niður yfir Úkraínu. Tíðir bardagar á svæðinu hafa hamlað för rannsóknarmanna undanfarna daga og hægt á rannsókn málsins.Stjórnarherinn í Úkraínu gerði í dag eins dags hlé á baráttu sinni við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. Rannsóknarmenn segja þó enn ríkja hættuástand á svæðinu.

RÚV greindi frá.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: