Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, vekur athygli á að aðeins um 23 prósent landsmanna bera traust til Alþingis.
„Ekki þarf að horfa lengi á umræður frá Alþingi til þess að sjá að margir þingmenn mættu taka þingfundi hátíðlegar. Ég er einn þeirra sem telur að fólk eigi að klæða sig sparilega í þingsal og sýna Alþingi þannig virðingu. Verra er hve margar ræður eru illa undirbúnar, ræðumenn tafsa og tuldra, endurtaka sig og rekur í vörðurnar. Sumir koma aftur og aftur upp til þess að segja það sama – eða ekkert. Aðrir koma í ræðustól til þess að segja aulabrandara. Örfáir mæta helst aldrei. Stöku eru dónalegir og orðljótir,“ segir Benedikt í nýrri Moggagrein.
„Af kynnum mínum tel ég að alþingismenn séu upp til hópa heiðarlegt fólk, sem mætti oftar vera sjálfu sér samkvæmt,“ skrifar Benedikt. „Meginskýringin á vantrú fólks á þingmönnum er örugglega sú að þeir eru sjálfum sér verstir. Erfitt er að verjast brosi þegar VG-liðar tala með vandlætingu um málþóf stjórnarandstöðu, þingmenn sem árum saman töluðu mest en sögðu minnst á löggjafarsamkomunni. Í þingsal á ekki að vera samkeppni í því hver getur hneykslast mest, heldur vettvangur uppbyggilegra umræðna. En engum dettur neitt uppbyggilegt í hug meðan Miðflokksmenn mæra speki hver annars í þingsal eða á öðrum vettvangi.
Meginvandi íslenskra stjórnmálamanna er þó hræðslan við að ná niðurstöðu og klára mál. Þeir ýta mikilvægum málum á undan sér: Markaðsgjald í sjávarútvegi, skynsamleg stjórnarskrá, jafn kosningaréttur, stöðugur gjaldmiðill. Þingmönnum er ókleift að klára þessi mál vegna þess að þau snerta jafnrétti og allra hag. Ekki sérhagsmuni.“