Stjórnmál / „Þegar allt kemur til alls er einni spurningu ósvarað. Er Þórdís Lóa í fullkominni flónsku gagnvart fjárhag Reykjavíkurborgar? Eða fer hún vísvitandi með ósannindi? Ekki veit ég, hvort mér þykir verra.“
Það er Hildur Björnsdóttir, varaoddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem sendir formanni borgarráðs, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, þessa sneið í Moggagrein í dag.
Tilefnið er neyðarkalli borgarinnar. Starfshópur sem; „sem skipaður var af borgarstjóra, hvar sátu margir helstu stjórnendur Reykjavíkurborgar,“ hafði skilað af sér: Þar sagði meðal annars að viðbótarfjármögnunarþörf borgarsjóðs umfram forsendur fjárhagsáætlunar fyrir 2020-21 myndi nema 39 milljörðum króna. Þá væru ótaldir 36,5 milljarðar sem myndu falla til næstu árin. Jafnframt sagði í niðurstöðunum: „Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði.“
Hildur heldur áfram: „Skógarbóndinn, Þórdís Lóa, virtist alls ómeðvituð um neyðarkall borgarinnar til ríkissjóðs – jafnvel þótt hún hefði á vordögum sett erindið sjálf á dagskrá borgarráðs. Sá kann ekki að segja af súru sem aldrei sýpur nema sætt. Meirihlutaflokkarnir hafa meiri áhuga á eigin innantóma loforðahjómi, en úrlausn flókinna viðfangsefna. Þórdís Lóa ræktar garðinn sinn, en sýnir fjármálum borgarinnar fullkomið hirðuleysi.
Neyðarkall borgarinnar sýndi glöggt alvarlega stöðu borgarsjóðs – mun alvarlegri en stöðu annarra sveitarfélaga. Nú bítur meirihlutinn í það sjálfskapaða súra epli, að hafa haldið frjálslega um rekstur borgarsjóðs undanliðin kjörtímabil. Hirðuleysið er algert – borgin er varnarlaus nú þegar skórinn kreppir – og ábyrgðin er meirihlutans.
Samhliða neyðarkallinu kynnir meirihlutinn hið svokallaða „Græna plan“ sem kallar á útgjöld sem nema 100 milljörðum hið minnsta, næstu 5-10 árin. Hvernig áformin samræmast ósjálfbærum rekstri Reykjavíkurborgar er fullkomlega á huldu. Minnir helst á nýlega ábatagreiningu borgarinnar á ferðaþjónustu, hvar borgin kallaði á ríkisaðstoð og fullyrti ferðaþjónustuna kosta sveitarfélagið 8,3 milljarða árlega. Hagur borgarinnar hefur þá væntanlega vænkast verulega, nú þegar ferðaþjónustan berst í bökkum? Hér stendur ekki steinn yfir steini.“