Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar:
Hér lýsir Félag vélstjóra og málmtæknimanna afleiðingum af þjónkun ríkisstjórnarinnar við stórútgerðina: Útgerðin nýtur góðs af, sjómenn tapa, hafnir tapa, sveitarfélög tapa, almenningur tapar.
Það er löngu tímabært að útkljá þetta gamla þrætuepli um hvernig veiðiheimildum skuli úthlutað, hvernig viðskiptum með þær skuli háttað og hvernig þjóðinni verði tryggð ásættanleg hlutdeild í arðsemi af sjávarútvegi. Andstaðan við þessar sjálfsögðu kröfur er óskiljanleg þegar haft er í huga að útgerðin er augljóslega tilbúin til að greiða talsvert hærri gjöld fyrir veiðiheimildir í erlendum lögsögu eins og mál Samherja í Namibíu hefur sýnt fram á. Það þarf að tryggja auðlindaákvæði, sem m.a. kveður á um tímabundnar úthlutanir veiðiheimilda, í stjórnarskrá landsins. Það þarf líka að tryggja gegnsæi í verðlagningu eins og kostur er til að koma í veg fyrir stuld á borð við þann sem auglýsingin hér lýsir. Er þetta ekki bara orðið gott með sérhagsmunina? Brauðmolarnir orðnir þurrir? Hótanirnar innantómar? Hættumerkin hrópandi? Þörf fyrir breytingar knýjandi? Hérna, hvenær verður aftur kosið?