Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, skrifar ágæta grein í Mogga dagsins. Þar bendir hún Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á að enn sé beðið réttlætis.
Þuríður Harpa segir Katrínu hafa komið sér upp „ríkissvari“. „Katrín talar gjarnan fyrst um lækkun tekjuskatts,“ skrifar Þuríður Harpa, og svo: „Því miður er lækkunin þannig að þegar tekjur fara niður fyrir 300 þúsund krónur, eru áhrif hennar nánast horfin. Fyrir öryrkja, sem fær fyrir skatt 265 þúsund og einhverjar krónur, færir skattalækkunin honum 2.951 krónu í auknar ráðstöfunartekjur á mánuði. Þessar upphæðir eiga við nú eftir áramót, þegar skattalækkunin hefur komið að fullu til framkvæmda, og örorkulífeyrir hækkað um 3,6%. Til að setja þessa tölu í samhengi er rétt að benda á að nú um stundir auglýsir veitingastaður nokkur sérstakt tilboð, stór pizza og tveir lítrar af gosi á 2.900.“
Hér er önnur tilvitnun í grein formanns Öryrkjabandalagsins: „Ráðherra nefnir að skerðing krónu á móti krónu hafi verið minnkuð í 65 aura gegn hverri krónu. Það er öryrki, sem nýtur einhverra atvinnutekna, fær þá heila 35 aura af hverri krónu sem hann vinnur sér inn. En forsætisráðherra er ánægður með árangurinn. Rétt er hér að minna á að öll viðmiðunarmörk í almannatryggingakerfinu, frítekjumörk og eignarmörk, hafa verið óbreytt í 10 ár. Frítekjumörk sem eiga að tryggja að eitthvað af tekjum sem öryrkjar vinna sér inn sitji eftir, ættu að hafa tvöfaldast ef þau hefðu fylgt launaþróun. Afleiðingin er því í raun enn harðari skerðingar en voru þegar króna á móti krónu var komið á árið 2010. Forsætisráðherra er vart ánægður með þann árangur.“
Er nema von að Katrín sé enn og aftur minnt á eigin orð um að ekki sé hægt að ætla fólkinu að bíða lengur eftir réttlætinu.