Stjórnmál

„Er þessu beint að einhverjum sérstökum?“

By Miðjan

March 05, 2021

Þegar Björn Leví Gunnarsson sagði þetta, „…fjallað um kjörtímabil forseta og takmörkun á því að forseti sitji lengur en tvö kjörtímabil samfleytt. Mér finnst það vera ágætisfordæmi fyrir ráðherra og meira að segja líka þingmenn að takmörkun skuli vera á fjölda kjörtímabila fyrir kjörna fulltrúa,“ í umræðu um einkastjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra greip forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, fram í fyrir ræðumanni og sagði:

„Er þessu beint að einhverjum sérstökum?“

Hann hefur greinilega tekið þetta til sín. Björn Leví hélt áfram:

„Nei, þessu er ekki beint að neinum sérstökum, alls ekki, heldur sérstaklega að ráðherrum, að því er ég tel, og þá kannski fyrri ráðherrum sem eru ekki lengur á vettvangi. Þetta er eitthvað sem við erum statt og stöðugt að læra, að ákveðin þaulseta hefur áhrif, sérstaklega þegar fólk er við völd. Völd spilla einfaldlega, við vitum það. Hversu mikið? Það veit í raun enginn fyrr en viðkomandi tekur við völdum. Almennt séð er kannski ákveðinn öryggisventill að það sé einfaldlega takmörkun á fjölda kjörtímabila til að tempra þá áhættu. Við erum með fjölda fólks hér úti sem getur auðveldlega gegnt þessum störfum, enda er fólkið sem kemur hingað inn bara almennir borgarar eins og gengur og gerist.“