- Advertisement -

Er stefna Landsvirkjunar röng?

Samfélag „Raforkuverð í Evrópu og víðast hvar í heiminum eru mjög lág um þessar mundir og fátt sem bendir til að þau hækki í bráð. Þau sjónarmið sem réðu ríkjum þegar verðstefna Landsvirkjunar var mótuð fyrir 3-4 árum virðast ekki eiga við núna. Við erum ennfremur að glíma við einn hæsta flutningskostnað á raforku í heiminum og að óbreyttu mun hann hækka verulega,“ þetta segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„Allir hafa hag að því að rekstur Landsvirkjunar gangi vel og að arðsemi fyrirtækisins sé góð. En á sama tíma framleiðir fyrirtækið um 70% af allri raforku í landinu – orku sem er lífæð fjölbreytts iðnaðar og skapar miklar beinar og óbeinar tekjur. Það leggur ríkar skyldur á herðar fyrirtækisins. Undir er samkeppnishæfni orkunýtingar á Íslandi og þá verðum við að líta til þess hvernig orka er verðlögð í samkeppnislöndum okkar“, segir Almar.

 

„Það er mikilvægt hagsmunamál að stóriðjufyrirtækin á Íslandi geti áfram dafnað á Íslandi“, segir Almar Guðmundsson.

Almar segir að orkutengdur iðnaður og sjávarútvegur séu traustar stoðir útflutnings á vörum og þekkingu frá Íslandi, hins vegar sé viðbúið að tækni- og hugverkagreinar og ferðaþjónusta vaxi mun hraðar á næstu árum. Styrkur íslensks efnahagslífs felist í fjölbreytileikanum og að mismunandi eiginleikar greinanna skapi stöðugra hagkerfi.

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Snýst ekki bara um álver

„Heilt yfir standa fyrirtækin í stóriðju frammi fyrir afar erfiðu starfsumhverfi. Afurðarverð á málmmörkuðum eru lág, kjaradeilur í gangi og endurnýjanir mikilvægra raforkusamninga standa yfir“. Almar segir að erfiðleikar í þessum greinum smitist út í aðra geira atvinnulífsins . „Þetta snýst ekki bara um álver eða aðra stóriðju. Það eru miklu fleiri fyrirtæki sem finna fyrir þessu ástandi. Í kringum stóriðjuna á Íslandi hefur byggst upp gífurlega mikil og fjölbreytt starfsemi, sem hefur vaxið sérstaklega mikið á seinni árum. Þetta er orðin ein af stoðum hagkerfisins sem skapar um fjórðung gjaldeyristekna og veitir þúsundum manna vel launaða vinnu. Samkeppnishæfni þessarar greinar verður að treysta og verja“, segir Almar.

Óvíða meiri flutningskostnaður

Hvað raforkumálin varðar hefur Landsvirkjun sagt að markmið fyrirtækisins sé að bjóða ávallt samkeppnishæf kjör á raforku miðað við raforkumarkaði í Evrópu með langtímasamningum, hagstæðu verði og miklu afhendingaröryggi. Ennfremur segja stjórnendur fyrirtækisins að samningar í dag þurfi að endurspegla það umhverfi sem er í dag en ekki eins og það var fyrir 20 árum.

Á árunum 2011-2012 þegar Landsvirkjun markaði núverandi verðstefnu voru algeng verð á erlendum mörkuðum um 50-60 dollarar á megavattstund. Landsvirkjun staðsetti sig vel undir þessum mörkum til að vera samkeppnishæf. Í dag er staðan sú að verð Landsvirkjunar virðast vera óbreytt á meðan verð erlendis eru allt að 50% lægri en þá, þvert á fyrri spár.

„Við höfum einmitt bent á að það verði að horfa til alþjóðlegra raforkumarkaða og samkeppnishæfni okkar í verðum út frá stöðunni í dag. Raforkuverð í Evrópu og víðast hvar í heiminum eru mjög lág um þessar mundir og fátt sem bendir til að þau hækki í bráð. Þau sjónarmið sem réðu ríkjum þegar verðstefna Landsvirkjunar var mótuð fyrir 3-4 árum virðast ekki eiga við núna. Við erum ennfremur að glíma við einn hæsta flutningskostnað á raforku í heiminum og að óbreyttu mun hann hækka verulega.“

Byggt á frétt á si.is.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: