Fyrirhugað var að vinna úr þessari grein Helgu Völu Helgadóttur, sem birtist í Mogganum í dag, en það er bara ekki hægt. Miðjan birtir hana því alla.
Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég hlustaði á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, tjá sig í fyrsta sinn um uppljóstrun Wikileaks, Kveiks og Stundarinnar á meintu framferði útgerðarrisans Samherja í Afríkuríkinu Namibíu.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hafði þetta að segja: „Það er nú kannski líka það sem er sláandi og svo sem lengi vitað að spillingin í þessum löndum – auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli veikt og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar rót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“
Með öðrum orðum er fjármálaráðherra að segja að mögulegt mútubrot, peningaþvætti, skattalagabrot og fleira sem fyrirsvarsmenn Samherja eru nú grunaðir um að hafa ástundað í einu fátækasta ríki heims, megi rekja til spillts stjórnkerfis þar í landi. Að þetta sé, svo vísað sé til orða ráðherrans, ekki á nokkurn hátt afrakstur þeirrar sjávarútvegsstefnu sem rekin hefur verið hér á landi, aðallega í boði Sjálfstæðisflokksins. Ekki heldur vegna þess hvernig stórútgerðinni hefur verið gert kleift að sölsa undir sig allar fiskveiðiheimildir landsins árum saman, heldur af því að stjórnmálamenn suður í Afríku séu bara svona spilltir.
Skoðum þetta aðeins. Miðað við þær upplýsingar sem lesa má í Stundinni og komu fram í Kveik fór Samherji í víking suður til Afríkuríkisins Namibíu, beint í kjölfar þess að Íslendingar höfðu veitt þessu sama ríki þróunaraðstoð um árabil. Íslensk stjórnvöld aðstoðuðu þessa fátæku þjóð við að byggja upp fiskveiðistjórnunarkerfi, kenndu henni hvernig best væri að nýta þessa auðlind namibísku þjóðarinnar svo hún sjálf gæti í framhaldinu, án utanaðkomandi aðstoðar vestrænna ríkja, betur séð sér farborða. Þetta verk stunduðu íslenskir fræðimenn og aðrir um nokkurra ára skeið en héldu svo á aðrar slóðir við þróunarsamvinnu.
Þá kom Samherji.
Frá þeim tíma virðist, ef marka má uppljóstrunina, sem þetta stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands hafi með peningum, sem fyrirtækið öðlast fyrir að veiða sameiginlegar auðlindir Íslendinga, fengið namibíska stjórnmálamenn en ekki þarlenda eigendur sjávarauðlindar við Namibíu til að afhenda sér á silfurfati veiðiheimildir í namibískri lögsögu. Hið rammíslenska fyrirtæki ber að mati fjármálaráðherra enga ábyrgð á því að koma svona fram við eitt fátækasta ríki veraldar. Hið rammíslenska stjórnkerfi sem leyfir sjávarútvegsfyrirtækjum að sækja sjávarauðlindir íslensks almennings í kringum Ísland á óeðlilega lágu verði ber heldur enga ábyrgð. Það skulu vera stjórnmálamenn í Afríkuríkinu Namibíu sem skella á skuldinni á. Þar er spillingin, að mati fjármálaráðherra.
Má ætla að fjármálaráðherra þurfi á smá sjálfsskoðun að halda?