- Advertisement -

Er skynsamlegt að afnema verðtryggingu?

Efnahagsmál Lengi hafa verið skiptar skoðanir um hvort rétt sé, eða ekki, að afnema vertrygginguna. Tímaritið Mannlíf fjallaði um þetta árið 2008 og leitaði þá til tveggja manna og spurði hvort þá hafi verið skynsamlegt að afnema verðtrygginguna. Skoðum þetta.

Stefán B. Gunnlaugsson, þá sérfræðingur hjá Íslenskum verðbréfum

Nei, ekki meðan við notum íslensku krónuna. Verðtryggingin minnkar áhættu á þann hátt að skuldbindingar, innlán sem útlán, halda verðgildi sínu. Þetta leiðir því til þess að fjárfestar eru tilbúnari að lána peninga; áhætta þeirra minnkar og framboð á lánsfé eykst.  En nú má spyrja um stöðu skuldaranna? Óumdeilt er að verðtryggingin léttir eða frestar greiðslubyrði.  Sem dæmi má nefna að í dag þá er greiðslubyrði af nýju 20 millj. kr. verðtryggðu íbúðarláni frá Íbúðalánasjóði rétt rúmlega 101 þús. kr. á mánuði.  Sú greiðslubyrði er föst en hækkar í takt við verðbólguna. Ef lántakandinn gæti fengið sambærilegt óverðtryggt lán þá yrði það nær örugglega með breytilegum vöxtum. Miklar sveiflur yrðu á greiðslubyrðinni sem myndi sveiflast í takt við breytingar á vaxtastigi. Greiðslubyrðin væri nú minnst 300 þús. kr. á mánuði. Því myndi afnám verðtryggingar koma sér illa fyrir aðþrengda íslenska skuldara – sérstaklega eins og staðan er núna.

Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri og þá bæjarfulltrúi í Árborg

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verðtrygging í verðbólgu er vágestur heimilanna. Best af öllu væri að hafa gjaldgengan gjaldmiðil. Í slíku felst von um að við gætum losnað við þann kostnað sem krónunni fylgir, sem er verðtryggingin og háir vexti. Ég tel hugmyndir í þessa veru hafa meiri hljómgrunn nú en fyrir um hálfu ári. Íslendingar gætu fyrirhafnarlítið og einhliða gert Bandaríkjadollar, evru, svissneskan franka eða norska krónu að sínum lögeyri. Að velja slíka leið er miklu fljótlegra en til dæmis að ganga í Evrópusambandið, eins og marga fýsir. Eitt af vandamálunum sem fylgir því að taka einhliða upp erlendan gjaldmiðil hér á landi er að ekki er seðlaprentvél í Seðlabanka Íslands, séstaklega til þrautavara. Fari hins vegar svo að íslensku bankarnir komist í meirihluta eigu útlendinga getum við haft minni áhyggjur af slíku. Við núverandi aðstæður er mikilvægt að vera opin fyrir öllum hugmyndum – því eftir hrunið í októberbyrjun er íslenska efnahagskerfið á núllpunkti í gjaldeyrismálum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: