Stjórnmál
Mogginn er ekki par hrifinn af Vinstri grænum þessa dagana. Í Staksteinum dagsins segir:
„Vinstri grænir eru órólegir vegna fylgishruns flokksins og um það skrafað að aðeins ótti þeirra við dauðadóm kjósenda komi í veg fyrir stjórnarslit.
Í fyrri viku stýrði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, bráðabirgðaformaður Vinstri grænna, ríkisstjórnarfundi í fjarveru Bjarna Benediktssonar, en að honum loknum skipaði hann forsætisráðuneytinu að rannsaka afskipti lögreglu af mótmælendum við fundinn, líkt og hann væri orðinn æðstráðandi til sjós og lands.“
Fastar þarf ekki að orða þetta. Mogginn virðist öruggur um að VG þori í kosningar og því sé hægt að sparka í VG og lemja. Meira úr Staksteinum um Guðmund Inga Guðbrandsson:
„Á því hnykkti hann svo á félagsmiðlum og kvaðst hafa óskað rannsóknar á valdbeitingu lögreglu. Daginn eftir birti Sunna Valgerðardóttir, starfsmaður Vinstri grænna, pistil, þar sem hún afskrifaði ríkisstjórnarsamstarfið og nefndi „lögregluofbeldi“ sem einn helsta ásteytingarstein þess.
Daginn þar á eftir kvaddi þingskörungurinn Jódís Skúladóttir sér hljóðs og kvað það vekja sér „ugg að lesa nær daglega um lögreglu sem fer offari í aðgerðum sínum og beitir valdi og hörku gegn almennum borgurum“.“
Þarna er Jódís dregin inn í umræðuna og nefnd þingskörungur. Þar ætlar ritstjórinn að freista þess að niðurlægja þingmanninn. En tekst eflaust ekki.
„Lögregla má ekki vera yfir gagnrýni hafin, síst hvað varðar valdbeitingu, en það er fjarstæðukennt að lögregluofbeldi sé daglegt brauð. Kannski það sé skemmra til kosninga en við vitum, en á hvaða braut eru Vinstri grænir með því að spinna slíkan söguþráð gegn lögreglunni? “