Fréttir

Er Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgur og stjórntækur stjórnmálaflokkur?

By Ritstjórn

November 19, 2020

Bolli Héðinsson skrifar áhugaverða grein í Fréttanblaðið í dag. Bolli rekur nokkrar staðreyndir og spyr að því loknu mjög þarfrar spurningar.

Annars er greinin svona:

2013, Sjálfstæðisflokkurinn tekur við dómsmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og ráðuneyti ferðamála þegar hann gengur til ríkisstjórnarsamstarfs um að greiða milljarða á milljarða ofan til þeirra Íslendinga sem mest hafa á milli handanna undir formerkjunum „Leiðréttingin“. Sama ár koma hjón frá Senegal og leita skjóls á Íslandi. Á meðan á dvöl þeirra stendur eignast þau tvö börn. 2020, allan þann tíma er það á forræði þeirra ráðuneyta, sem Sjálfstæðisflokkurinn fer fyrir, að breyta innflytjendalöggjöfinni og veita meira fé til Útlendingastofnunar þannig að hún geti með skilvirkari hætti sinnt þeim málefnum sem henni eru falin. 2020 er ákveðið að vísa fjölskyldunni frá Senegal úr landi.

2017 er stofnað til nýs dómstigs, Landsréttar. Sjálfstæðisflokknum tekst að nær eyðileggja hið nýja dómstig þegar forsendurnar sem hann leggur til grundvallar við val á dómurum eru aðallega tvær – eru umsækjendur um dómarastörfin flokknum þóknanlegir eða teljast þeir til þeirra sem eru flokknum ekki þóknanlegir.

2015, ferðamönnum fjölgar ár frá ári, innviðir landsins, vegakerfi og fleira rís ekki undir ásókn ferðamanna og fjárfestingar í hótelum eru í hæstu hæðum. Rætt er um að ferðamenn ættu að greiða komugjöld svo verja megi meiri fjármunum í ferðamannastaði sem hafa látið á sjá. Ekkert gerist, það er Sjálfstæðisflokknum sem farið hefur með málaflokkinn óslitið 2013-2020, um megn að taka slíkar ákvarðanir þar sem alltaf er fyrst spurt hvernig þetta kemur við sérhagsmunina sem þeir gæta, áður en spurt er hverjir séu hagsmunir almennings.

Viðbrögð ábyrgra stjórnmálaflokka sem setja almannahagsmuni í forgang hefðu verið að bregðast við með þeim tólum og tækjum sem seta í fjármálaráðuneytinu færir þeim upp í hendurnar (fiscal policy) en Sjálfstæðisflokkurinn gerir það ekki. Alltaf sátu sérhagsmunir fyrir.

2020, fjármálaráðherrann kvartar yfir því að rekstur ríkisins, sem hann hefur farið fyrir um árabil, sé ekki nægjanlega skilvirkur og þar sé bruðlað og ekki vel farið með fé. Er Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgur og stjórntækur stjórnmálaflokkur?