„Í dag mun borgarstjórn ræða tillögu meirihlutans um sölu á 33,33% hlut í Ljósleiðaranum, sem er félag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Allir flokkar í borgarstjórn eru hlynntir því að selja hlut í Ljósleiðaranum að undanskildum Sósíalistaflokki og Vinstri-grænum,“ þetta segir í Moggafrétt í dag.
Þar segir að Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir borgarstjórn ganga of langt í einkavæðingunni. Hún segir það koma á óvart að Samfylkingin sé hlynnt henni en Sanna segist í raun ekki sjá mikið vinstri við flokkinn.
„Mér finnst þetta mjög stórt og slæmt skref sem er verið að taka með því að selja hlut af félagi í okkar eigu og hleypa einkaaðilum að,“ segir Sanna í samtali við Morgunblaðið. „Við höfum lagt til að það verði skoðað hvort orkuveitan geti komið inn með fjármagn.“ Hún segir Sósíalista munu reyna allt til að tryggja að þetta verði í opinberri eigu og hún leggur til að málið verði skoðað í stærra samhengi. Hún vill til dæmis að tilskipanir EES um að einkavæða eigi slíka innviði verði að endurskoða.
„Samfylkingin er í rauninni ekkert að berjast fyrir því sem þau segjast berjast fyrir,“ segir Sanna spurð út í hvað henni finnist um afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. „Ég sé í rauninni ekki mikið vinstri hjá þessum flokki.“