„Reykjavíkurborg áformaði í útgáfuáætlun skuldabréfa sem kynnt var í ársbyrjun að gefa út skuldabréf fyrir 21 milljarð króna á fyrri hluta ársins, en borgin hefur verið í mikilli fjárþörf vegna ört vaxandi skulda undir stjórn núverandi meirihluta á liðnum árum. Fyrirhugað útboð í mars var fellt niður vegna áhugaleysis fjárfesta sem hefði endurspeglast í gríðarlega óhagstæðum kjörum ef af útboðinu hefði orðið. Það sem af er ári hafa aðeins 3,5 milljarðar af fyrirhuguðum 21 milljarði skilað sér í fjárhirslur borgarinnar og óvissa hefur ríkt um það sem út af stendur eða hvernig borgin hefur fjármagnað sig. Þetta er í meira lagi óheppilegt, meðal annars í ljósi þess að borgin fékk nýlega athugasemd frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fyrir að fara fram úr lágmarksviðmiðum sem sett hafa verið,“ skrifar Davíð í leiðara Moggans í dag.
Staða borgarinnar er vissulega afar erfið.
„Menn geta svo sem kallað hlutina ýmsum nöfnum en það breytir ekki þeirri staðreynd að borgin er orðin svo illa stödd fjárhagslega og framtíðaráformin eru svo vafasöm, að þeir sem fjárfesta á skuldabréfamarkaði treysta sér ekki til að lána borginni nema á svo háum vöxtum að borgarstjóri þorir ekki að sýna almenningi þá mynd af fjárhagnum. Og þó að borgarstjóri skýri það með „óróa á mörkuðum“ þá dugar sú skýring skammt. Reykjavíkurborg ætti, ef rétt væri á fjármálunum haldið, að vera sá útgefandi á landinu, næst á eftir ríkinu, sem gæti alltaf fjármagnað sig á markaði á hagstæðustu kjörum. Fjárfestar ættu að líta á skuldabréf Reykjavíkurborgar sem gulltryggð, en svo er því miður ekki lengur eftir áralanga óráðsíu vinstriflokkanna,“ segir í leiðara borgarstjórans fyrrverandi.
„Engum dylst að fjárhagur borgarinnar er kominn í algerar ógöngur og að innan skamms verður hann óviðráðanlegur með hefðbundnum ráðum nema tekið verði í taumana án tafar. Ekkert bendir til að stjórnendur borgarinnar hafi vilja eða burði til þess og þá hlýtur að vera komið að því að innviðaráðuneytið og eftirlitsnefnd þess með fjármálum sveitarfélaga grípi inn í með afgerandi hætti. Vegna þjóðhagslegrar þýðingar borgarinnar er enn brýnna en í tilvikum annarra sveitarfélaga að það verði ekki látið dragast.“