Stjórnmál Skoðanakannanir hafa sýnt að rúm sé fyrir frjálslyndan hægri flokk, „…ef frambærilegt fólk fæst til verka og stefnuskráin verður trúverðug,“ sagði Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands, í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. „Það er kannski tómarúm í íslenskum stjórnmálum sem hægt er að fylla í.“
Kristófer Helgason þáttarstjórnandi og Baldur ræddu viðtal við Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar, sem þeir sögðu hafa verið á Rás 2, en hér er fullyrt að þeir hafi vitnað til viðtals við Guðmund í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni, en þar sagði Guðmundur að Björt framtíð væri sá hægri frjálslyndi flokkur sem fólk vildi stofna, svo það væri óþarft.
Baldur sagði að í nýgengnum kosningum virðist Björt framtíð ekki hafa tekið mikið fylgi af Sjálfstæðisflokki. „Það var frekar færsla á fylgi frá Samfylkingunni yfir til Bjartar framtíðar. Guðmundur hefur verk að vinna ætli hann að sannfæra frjálslynda hægri menn að þeir eigi að vera í sínumherbúðum.“
Baldur sagði það fólk sem talar fyrir væntanlegan flokk komi úr Sjálfstæðisflokknum. „Það er að höfða til frjálslyndra hægri manna.“ Hann nefndi mun á áherslum. „Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf að halda vel á spilunum til að halda fylginu ef þetta afl býður fram í næstu þingiskosningum,“ sagði Baldur Þórhallsson.