Er orkupakkinn byrjun á för úr EES?
„Þegar öllu er á botninn hvolft situr eftir ein spurning. Snýst þetta raunverulega um þriðja orkupakkann? Er hugsanlegt að orkupakkinn, eins óspennandi og hann er, sé notaður sem tól til að grafa undan trausti á EES-samningnum og öðru alþjóðasamstarfi? Það er útlit fyrir að þriðji orkupakkinn, rétt eins og aðrar EES-tilskipanir, verði samþykktur á Alþingi. En gæti verið að skaðinn verði þá þegar skeður er kemur að áliti almennings á Evrópusamstarfinu? Kynni andstæðingum orkupakkans þá að hafa tekist ætlunarverkið eftir allt saman; að stilla Evrópusinnum og öðrum þeim sem aðhyllast EES-samninginn upp sem einhvers konar hugleysingjum?“
Þannig skrifar Geir Finnsson, sem er formaður ungra evrópusinna, í Moggagrein.
Um helstu andstæðinga orkupakkans skrifar Geir: „Það er hér sem popúlisminn skín skærast, en það er í eðli hans að gera sérfræðingana sjálfa tortryggilega og sá þannig efasemdafræjum.“
Geir varar við hugsanlegum afleiðingum:
„Sama hvað veldur þá eru hættumerkin kunnugleg. Við sáum hvernig fór fyrir Bandaríkjamönnum með Trump, Ungverjum með Orbán, Bretum með Brexit og svo framvegis. Niðurstöður sem rekja má til þess þegar hinn almenni borgari vanmat þá sem hræddir voru. Þar kaus hrædda og einangrunarsinnaða fólkið framtíðina fyrir yngstu kynslóðirnar, sem höfðu tapað trúnni á stjórnmálum og mættu þess vegna ekki á kjörstað, með ömurlegum afleiðingum. Ég legg til að við lærum af mistökum þessara þjóða og vanmetum ekki mátt þeirra sem ala á einangrun og afturhaldi. Gælum ekki við hugsjónir þeirra sem vilja grafa undan trausti á mikilvægustu viðskiptasamningum þjóðarinnar.“