Fréttir

Er orðin þreytt á að lifa svona lífi

By Gunnar Smári Egilsson

January 04, 2020

Gunnar Smári skrifar:

Þetta skrifar Stephanie Rósa Bosma í upphafi árs. Og þetta er raunveruleiki meginþorra láglaunafólks; eftir miklar væntingar til stéttaátaka síðasta vetrar upplifir fólkið að ekkert hafi breyst, að það búi við sama peningaleysið, sama öryggisleysið og sama valdaleysið. Forysta verkalýðshreyfingarinnar verður að horfast í augu við þetta; ef hún ætlar að selja sjálfum sér og öllum öðrum að hinir svokölluðu lífskjarasamningar hafi verið frábærir mun hún tapa tiltrú sinna félaga. Og sú tiltrú er veik, láglaunafólk hefur mátt þola það áratugum saman að fólk sem það hefur treyst fyrir að flytja sitt mál og verja sína hagsmuni hefur svikið það; haldið því fram ömurleg lífsskilyrðin sem verkafólki eru búin séu í raun góð og/eða að þau séu ekki aðalatriðið heldur séu einhverjir sigrar mikilvægari, sigrar sem aldrei skila sér til láglaunafólksins. Eitt er að búa við fátækt og öryggisleysi, en þegar við bætist valdaleysi og raddleysi, sem birtist í því að málsvarar þínir tala ekki þínu máli, ekki út frá þínum raunveruleika, þá er vonin tekin frá fólki. Og vonin er allt sem láglaunafólkið á. Í upphafi árs ætti forysta verkalýðshreyfingarinnar að hlusta á Stephanie Rósu Bosma, þetta er raunveruleikinn sem stéttabarátta ársins á vera háð út frá:

Stephanie Rósa skrifar: „2. september 2018….kom ég fram og fleiri að tala um lálaun fólkið á íslandi og það þurfi að fara gera eitthvað fyrir okkur. núna er 4. jan 2020! og það er ennþá engin breyting! jú það er að byrja að hækka allt í kringum okkur, bensínið, matur, frístundagjald, leikskólagjöld og fleira. hvernig eigum við að fara komast að og lifa venjulegu lífi? að þurfa stressa sig á hverjum degi telja hvern einasta krónu fyrir Fucking mat eða föt! Er orðin þreytt á lifa svona lífi. hvar er fólkið okkar sem ætlaði að berjast fyrir okkur ? svör sem ég fæ þegar ég spyr hvernig er staðan er að þeir hjá ríkssáttasemjarar eru ekki sáttir við vinnustyttinguna…af hverju ekki bara skella verkfall og hætta þessu bulli að bíða? Tekur alltof langan tíma. á meðan hækkar allt og svo loksins þegar er búið að semja fyrir okkur láglaunað fólkið erum við ennþá að stressa okkur því það er allt að hækka í kringum okkur.“