Kirkjan
Nýr biskup Þjóðkirkjunnar, séra Guðrún Karls Helgudóttir, hefur ekki náð að heilla séra Kristinn Jens Sigurþórsson, sem sat síðastur presta til að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Kristinn skrifar um þetta grein í Moggann.
Greinin byrjar svona:
„Nýkjörinn biskups Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, var vígð til embættis við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Prédikun hins nývígða og hróðuga biskups varpaði þó skugga þar á. Sr. Guðrún hefur kennt prédikunarfræði við Háskóla Íslands og er eðlilegt að gerðar séu til hennar kröfur. Þar fyrir utan er það hlutverk biskups Íslands að hafa tilsjón með boðuninni og þarf hann því að hafa haldgóðan skilning á ritningunni og þeirri dýpt sem hún býr yfir.“
Í greininni er einnig að finna þessa tvo eftirfarandi kafla:
„Eins og við var að búast var í prédikuninni mikið gert úr hlut kvenna. Er slík nálgun orðin að þreytandi síbylju. Setti biskup fram þá fullyrðingu að tengdamóðirin væri „fyrsti“ djákninn í gjörvallri guðskristni á jörðu. Þá var því einnig haldið fram í efsta stigi að hún væri „fyrsti sanni“ lærisveinninn. Er þetta villandi auk þess sem ekki verður séð að útlegging af þessu tagi þjóni neinum trúartilgangi. Hafði þessi framsetning biskups í för með sér að fyrstu lærisveinarnir voru gerðir ósannir þrátt fyrir að hafa um aldir verið heiðraðir innan kristninnar sem heilagir. Er þetta illt afspurnar þegar horft er til samkirkjulegs starfs sem þjóðkirkjan tekur þátt í.
Grunar mig að biskup sé undir óhollum áhrifum af femínisma og kvennaguðfræði. Þá hjálpar ekki að um árabil starfaði hún við hlið sr. Vigfúsar Þórs Árnasonar í Grafarvogskirkju en frásagnir hans eru oft í efsta stigi. Var hann t.d. prestur í „nyrsta“ kaupstað landsins, Siglufirði, áður en hann varð „fyrsti“ sóknarpresturinn í „fjölmennasta“ prestakalli landsins. Eitt sinn lýsti hann því yfir í útvarpi að Grafarvogskirkja væri sú kirkja á Íslandi sem stæði „næst sjó“ sem varð til þess að sr. Baldur heitinn í Vatnsfirði hringdi í hann og tjáði honum að Unaðsdalskirkja stæði bókstaflega í flæðarmálinu. Það má sr. Vigfús Þór þó eiga að hann er hvað best kvæntur klerka á Íslandi.“