Samfélag
Oft er skemmtiefni að lesa leiðara Moggans. Og hvað ratar þangað. Nú eru það skrif um fangelsið á Litla-Hrauni. Ritstjórinn tengir saman fangelsið og fjölgun útlendinga. Það er erfitt að umorða skrifin svo það er best að þau birtist eins og þau koma af skepnunni:
„Ýmsir hér hafa ekki viljað ræða upphátt það endemis stjórnleysi yfirvalda hér sem hefur komið Íslandi í hreinar ógöngur. Lengi vel var einnig bannað að ræða slíkt í Svíþjóð en landið situr nú illa í súpunni og stjórnlausar glæpaöldur herja á þjóðina. Ekki er lengur hægt að þvinga umræðuna þar í landi og seinustu fréttir frá Noregi bera með sér sívaxandi óþol landsmanna.
Stutt er síðan rætt opinberlega um að stækka þyrfti Litla-Hraun án tafar og virtist umræðan helst bera með sér að ástæðan væri mygla eða önnur vandræði ills frágangs ungra bygginga eins og algengt er. En Litla-Hraun var í upphafi vel byggt sem sjúkrahús og mygla er fyrirsláttur. Úr varð að byggja nýtt og betra fangelsi, en af einhverjum ástæðum minna um hið augljósa talað, af hverju skyndilega var þörf á miklu fleiri fangaklefum.“
Þess ber að geta að elsta húsið í fangelsinu að Litla-Hrauni er jafn gamalt Sjálfstæðisflokknum, frá árinu 1929. Þegar minnst er á myglu að Litla-Hrauni er engin ástæða til að efast um það.
Vel má vera að myglu gæti í Sjálfstæðisflokknum. Innmúraðir og innvígðir ættu kannski að kanna það. Er kannski mygla í Valhöll?