Er Mogginn þá þrýstiapparat?
„Það fer vaxandi að fámenn þrýstiapparöt hafi sig iðulega mjög í frammi þegar slík færi gefast og nái of oft að sveigja mál í átt að sérvisku sinni,“ skrifar Davíð Oddsson í Moggann sinn, Mogga morgundagsins.
Frábært orð; þrýstiapparöt. Margt kemur upp í hugann. Fyrst SFS, áður LÍÚ. Útgerð Moggans. Er þá Mogginn þrýstiapparat? Já, sennilega. Annars er Davíð önugur. Finnur að háttsemi núverandi handhafa valdsins:
„Það þykir stundum þroskamerki hjá þeim sem með valdið fara að koma sér upp formi til kynningar mála, svo sem með auglýsingum eða „gátt“. En það hefur tekið á sig þá mynd að vera skjól fyrir þá sjálfa. Formið er aukaatriði hjá því sem meira skiptir, þeirri ábyrgð og trausti sem opinberu umboði fylgir.“
„En þegar horft er til skipulögðu þrýstiaflanna, oft fámenns hóps sem fær að auki opinberan fjárstuðning til að tala sínu máli, og undanlátssemi við það, er með lævísi farið aftan að fólkinu. Þótt það hafi hugsanlega verið utan „gáttar“ er það illa svikið í þeirri fullvissu sinni að lýðræðið sjálft væri trygging sem setja mætti allt sitt traust á. Athugun síðar sýnir iðulega að þrýstiloftsmenn hafa áður reynt að fá trúnað almennings í gegnum kjörkassana og því valið bakdyrnar.“