Hrollvekja dagsins er í Mogganum í dag. Þar er langt og fínt viðtal við Ingveldi Ægisdóttur og Kristinn Aðalsteinn Eyjólfsson. Þau hafa um árabil staðið í ströngu við heilbrigðis- og almannatryggingakerfið fyrir hönd langveikrar dóttur sinnar, Lovísu Lindar.
„Kostnaðurinn sem fylgir því að eiga langveikt barn getur verið mikill. Fjölskyldan hefur barist fyrir því að fá hjálpartækin úr tryggingum en hluti af lyfjakostnaðinum fellur utan greiðsluþátttöku. Ingveldur segir hann nema hundruðum þúsunda á ári. „Við vorum t.d. að kaupa plástra til að setja bak við eyrað á henni því hún slefar svo mikið og þeir hjálpa við það. Fjórir svoleiðis plástrar voru á 5.500 kr.“
Er meðal þess sem þau segja. Í viðtalinu segir:
„Að fá hjálpartæki fyrir Lovísu hefur reynst þrautin þyngri. Fjölskyldan sótti um legubekk frá Sjúkratryggingum en fékk höfnun þar sem þau voru þegar með barnakerru.“
„Ef hún er með kerru þá má hún ekki fá legubekk því það telst vera í sama flokki. Það þurfti að senda inn svaka greinargerð og taka fram að ég væri slæm í baki og með brjósklos. Því þetta er bekkur sem hægt að hækka og lækka. Sjúkraþjálfarinn hjálpaði okkur með greinargerðina og við kærðum niðurstöðuna og þá var það samþykkt,“ segir Ingveldur í viðtalinu.