Mannlíf

Er Logi á lokametrunum og Sigmundur Davíð í fallhættu?

By Miðjan

April 19, 2021

„Vandi Samfylkingarinnar er mestur en hún hefur gloprað frá sér fimm prósentustigum í fylgi frá því í desember þegar hún mældist með 17,9 prósent. Á milli mánaða fellur hún nú um nálega prósentustig, fer úr 13,7 prósent í mars í 12,8 prósent nú,“ segir Eiríkur Bergmann á Vísi.

Fari sem horfir er víst að Samfylkingu hefur tekist einstaklega illa upp. Í stað þess að spila sóknarleik stjórnarandstöðuflokks er Samfylkingin í nauðvörn. Ekki vegna þess að aðrir herji á hana. Nei, einungis vegna innan flokks vandræða. Rétti Samfylkingin ekki úr kútnum er annað ómögulegt en að Logi Einarsson sé á lokametrunum sem formaður flokksins.

„Í upphafi kosningabaráttunnar stóð Miðflokkur nokkurn vegin jafnfætis Framsóknarflokki, móðurflokknum sem hann klofnaði út úr. Mældist þá með 7,3 prósent á meðan Framsókn mældist með átta prósent,“ segir Eiríkur um Miðflokkinn.

„Ég lýsti í fyrri grein að Miðflokkurinn ætti að eygja fín sóknarfæri í aðdraganda kosninga. Eigi að síður hefur gliðnað á milli flokkanna og Miðflokkur fellur nú niður í 5,3 prósent. Er því kominn í bullandi fallhættu,“ segir prófessor Eiríkur.

Nokkuð ljóst er að Miðflokksfólk bíður þess að foringi þess standi upp og hefjist handa. Staðan er óviðunandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun finna baráttumál. Hvort hann hitti naglann á höfuðið er svo annað mál. Hann er ólíkindatól og spennandi verður að sjá hvað hann gerir.

Það er óþolandi fyrir Sigmund Davíð að Framsóknarflokkurinn mælist nú með meira en tvöfalt fylgi Miðflokksins. Nú er það spurning upp á líf eða dauða. Viðbrögðin verða eflaust hörð og eftirtektarverð.