- Advertisement -

Er lífskjarasamningar rétt nafngift? Getum við ekki gert betur?

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Þegar samið var um 317 þús. kr. lágmarkslaun í apríl báru þau laun 55.969 kr. skatt og útsvar. Útborguð laun eftir skatta, lífeyrissjóð og félagsgjöld voru þá 246.132 kr. Fyrir þessa hækkun voru lágmarkslaun 300 þús. kr., skatturinn af þeim 49.940 kr. og útborguð laun 235.960 kr. Samningarnir færðu lægst launaða fólkinu 10.172 nýjar krónur í launaumslagið.

Þetta var mun minni hækkun en kröfur verkalýðsfélaganna höfðu verið. Til að bæta fyrir litlar launahækkanir lofaði ríkisstjórnin að lækka skattbyrði á lægstu launum svo útborguð laun hækkuðu meira en sem nam launahækkunum. Skatturinn var hins vegar ekki lækkaður strax, fyrsti áfangi lækkunarinnar kemur ekki fyrr en nú um áramótin. Þá lækka skattarnir á lágmarkslaun um 4.699 kr. og þá enda 250.831 kr. í umslaginu eftir skatta, lífeyrissjóð og félagsgjöld. Samanlögð hækkun útborgaðra launa er þá orðin 14.871 kr. frá kjarasamningunum.

Að óbreyttu hefði nýr skattur af launahækkunum orðið 24.115 kr.

1. apríl á næsta ári hækka lágmarkslaun upp í 335 þús. kr. Af þeim verður tekinn 57.423 kr. skattur og útborguð laun eftir skatta, lífeyrissjóð og félagsgjöld verða þá 261.832 kr. sem eru 25.872 kr. hærra en var fyrir kjarasamningana. 20.943 kr. af þeirri hækkun kemur vegna launahækkana og 4.929 kr. vegna skattalækkana.

Seinkun skattalækkana kostar verkafólk 189 þús. kr.

Um áramótin 2021 hækka lágmarkslaunin svo aftur, verða 351 þús. kr. Og skattarnir lækka líka. Þá greiðir láglaunafólk 55.972 kr. í skatta og útborguð laun eftir skatta, lífeyrissjóð og félagsgjöld verða þá 278.531 kr. sem er 42.571 kr. meira en áður en samningarnir voru gerðir. Af þeirri hækkun útborgaðra launa má rekja 30.517 kr. til launahækkana og 12.054 kr. til skattalækkana.

Ári síðar, 1. janúar 2022, hækka lágmarkslaunin svo enn, verða 368 þús. kr. Engar skattabreytingar hafa verið boðaðar, en samkvæmt skattkerfi ársins 2021 verða skattgreiðslur af þessu 62.163 og útborguð laun 288.541 kr., sem er 52.581 kr. meira en var eftir af lágmarkslaunum fyrir samningana í vor. Af þeirri upphæð koma 40.689 kr. vegna launahækkana og 11.892 kr. vegna skattalækkunar. Að óbreyttu hefði nýr skattur af launahækkunum orðið 24.115 kr. en með skattabreytingunum gefur ríkið eftir rétt tæpan helming, fær þó 12.223 kr. í nýjar skatttekjur vegna launahækkana.

Verkafólk hlýtur að gera kröfur um að fá þetta á einhvern hátt bætt.

Ef ríkisstjórnin hefði sett alla skattalækkunina strax inn, eða ígildi hennar með einhverjum hætti, hefðu ráðstöfunartekjur fólks á lágmarkslaunum hækkað um 189 þús. kr. á tímabilinu 1. Apríl 2019 til 1. Janúar 2021. Það er sú upphæð sem ríkisstjórnin hefur af láglaunafólki með því að efna loforð sitt um skattalækkanir í smáum skrefum. Verkafólk hlýtur að gera kröfur um að fá þetta á einhvern hátt bætt.

Aðeins 25 þúsund króna bati á fjórum árum

En þetta eru allt nafnverð, hér er ekki tekið tillit til verðhækkana og hvað hægt er að kaupa fyrir þessar krónur. Til að meta það skulum við sjá hvernig verðbólgan frá kjarasamningunum hefur farið með þessar hækkanir og hvernig verðbólgan, eins og fjárlagafrumvarpið metur hana, fer með hækkanir næstu ára.

Ef við miðum við byrjun þessa árs, þegar síðustu samningar runnu út, og til ársloka 2022, þremur mánuðum eftir að nýju samningarnir renna út, þá hefur fólk sem er á lægstu launum 24.683 kr. meira í launaumslaginu í lok tímabilsins en í byrjun þess, sé miðað við fast verðlag janúar 2019. Það er það sem situr eftir þegar verðbólgan hefur tekið sitt. Ávinningurinn nær toppi í ársbyrjun 2022, er þá 31.718 kr. á verðlagi janúar 2019.

En er hægt að lifa af lægstu launum eftir þessa samningar? Það var sannarlega ekki hægt að gera það áður. Og er ekki hægt í dag. Ef við drögum frá framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara þá átti fólk á lægstu launum um 78.500 kr. upp í húsnæði í byrjun ársins en það mun eiga rétt túmlega 103 þús. kr. upp í húsnæði í árslok 2022. Það er langt undir gangverði á leiguhúsnæði.

Hungurmörk færast frá 16. að 19. degi mánaðarins

Ríkið nær því til baka 3.982 kr. frá leigjendum af þeim tæpum 12 þús. kr. sem það lagði til í lækkun skatta.

Það hafa ekki verið boðaðar neinar breytingar á húsnæðisbótum svo reikna má með að hækkun launa samkvæmt samningum muni skerða bæturnar. Fólk á lágmarkslaunum sem leigir íbúð á 175 þús. kr. í dag fær um 32.460 kr. í húsnæðisbætur og er því með húsnæðiskostnað upp á 152.540 kr. ef við reiknum með 10 þús. kr. í rafmagn, hita, hússjóð og slíkt. Við lok samningstímans hafa húsnæðisbætur lækkað niður í 28.478 kr. á sama verðlagi. Ríkið nær því til baka 3.982 kr. frá leigjendum af þeim tæpum 12 þús. kr. sem það lagði til í lækkun skatta. Krafa verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka leigjenda hlýtur því að verða að viðmiðanir húsnæðisbóta fylgi hækkun lægstu launa til að koma í veg fyrir að launa- og skattalækkanir leiði ekki til lækkunar húsnæðisbóta.

Ef við fylgjum þessum láglaunamanni eða –konu, sem er á lágmarkslaunum út allan tímann og sem leigir íbúð á 175 þús. kr. þá vantaði hana rúmar 74 þús. kr. til að ná endum saman í byrjun þessa árs en hana mun vanta rúmar 53 þús. kr. í árslok 2022. Í byrjun árs borgaði hún húsaleiguna í upphafi mánaðar og gat svo lifað samkvæmt framfærsluviðmiði Umboðsmanns skuldara fram á 16. dag hvers mánaðar. Restina af mánuðinum svalt hún eða þurfti að neita sér um lyf, fatnað eða ferðir. Eftir launa- og skattahækkanir næstu ára verður hún í þeirri stöðu í árslok 2022 að hún mun geta lifað fram á 19. dag hvers mánaðar.

Tekur áratug að eiga fyrir mat út mánuðinn

Um það snúast kjarasamningarnir, sem kallaðir hafa verið lífskjarasamningar; sá sem kom að hungurmörkum 16. dag hvers mánaðar fær að lifa þremur dögum lengur. Og það tekur hann næstum fjögur ár að komast á því marki. Ef ekki er að búast við meiru af kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar á næstu árum getum við reiknað með að það taki um tíu ár að koma lágmarkslaunum að því marki að fólk geti lifað af þeim mánuðinn á enda, ef ekkert óvænt kemur fyrir. Og að því gefnu að húsnæði hækki ekki umfram verðlag.

Það er mikið á láglaunafólkið lagt í nafni stöðugleikans. Það getur horft til þess að það muni ekki eiga fyrir framfærslu út mánuðinn fyrr en undir lok næsta áratugar. Og miðað við fjárlögin sem Alþingi var að samþykkja mun eftirlaunafólk og öryrkjar þurfa að bíða lengur.

Gátum við ekki gert betur?

Einstaklingar sjá bata, ekki fólk í sambúð

Fólk með tekjur frá Tryggingastofnun sem er í sambúð er í dag með 13,5% minna ráðstöfunarfé en lægstu laun eftir skatta og gjöld á meðan sá sem býr einn er með 2,6% hærri ráðstöfunarfé.

Þar sem við höfum tekið dæmi af einstakling á lægstu launum skulum við taka sambærilegt dæmi af einstakling, sem býr einn og barnlaus, og er á lífeyri frá Tryggingastofnun með heimilisuppbót. Þetta ár hefur sá fengið 310.800 kr. frá Tryggingastofnun og borgað af því 58.363 kr. í skatta og haldið því eftir 252.437 kr. Eftir framfærslu einstaklings sitja eftir 94.949 kr. upp í húsaleigu. Það gengur náttúrlega ekki upp. Í byrjun árs var þessi einstaklingur búinn með allan sinn pening 18. dag hvers mánaðar og verðbólgan hefur étið upp kaupmáttinn svo undir árslok eru peningarnir búnir 17. dag mánaðarins.

Þetta er þó skárri staða en fólk í láglaunastörfum býr við, m.a. annars vegna þess að fólk á lífeyri borgar hvorki félagsgjöld né í lífeyrissjóð en mestu skipir að hér tökum við dæmi af þeim sem býr einn og fær tæpar 63 þús. kr. í heimilisuppbót. Fólk með tekjur frá Tryggingastofnun sem er í sambúð er í dag með 13,5% minna ráðstöfunarfé en lægstu laun eftir skatta og gjöld á meðan sá sem býr einn er með 2,6% hærri ráðstöfunarfé.

Staða sambúðarfólks versnar enn meir

En það breytist á næsta ári. Um áramót hækka greiðslur Tryggingastofnunar um 3,5% og byggir það á verðlagsforsendum, bætir greiðslurnar fyrir verðbreytingum ársins sem er að líða en tekur ekki tillit til launahækkana samkvæmt samningum, þótt lögum samkvæmt beri að gera það. Ofan á þessa hækkun bætast síðan skattalækkanir þannig að ráðstöfunartekjur eftir skatta hækka um 11.889 kr. og verða 264.326 kr. Rúmur helmingur af batanum kemur vegna hækkunar á greiðslum en tæpur helmingur vegna skattalækkana. Eftir áramót verða ráðstöfunartekjur einstaklings með lágmarkstekjur frá Tryggingastofnun og heimilisuppbót 5% hærri en þeirra sem eru á lægstu launum. Í apríl hækka síðan lágmarkslaunin og við það lækkar þessi munur niður fyrir 1%.

Mikill meirihluti eftirlaunafólks og öryrkja eru hins vegar í sambúð. Ef við berum ráðstöfunarfé þeirra sem eru með lægstu greiðslur frá Tryggingastofnun við fólk á lágmarkslaunum þá voru greiðslur frá TR 9,8% undir lágmarkslaunum í upphafi árs, fóru í 13,5% eftir hækkanir lágmarkslauna á þessu ári, lækka niður í 11,4% við skattalækkanir um áramótin en hækka svo aftur í 15,2% þegar lágmarkslaun hækka að nýju í apríl á næsta ári. Í samanburði við vinnumarkaðinn skerðast kjör meirihluta öryrkja og eftirlaunafólks við kjarasamningana og aðgerða ríkisstjórnarinnar í kjölfar þeirra.

Einstaklingar fá að lifa einum degi lengur

Það er erfitt að kalla þann árangur lífskjarasamninga.

Þar sem ríkisstjórnin gefur tóninn með fjárlögum sínum getum við gengið út frá að greiðslur frá Tryggingastofnun hækki samkvæmt verðlagi á næstu árum, en ekki launaþróun. Samkvæmt verðlagsforsendum fjárlaga munu greiðslur Tryggingastofnunar hækka um 2,6% 1. janúar 2021 og um 2,5% 1. janúar 2022. Þar sem skattalækkanir vega hærra um þar næstu áramót helst hlutfall ráðstöfunarfjár einstaklings á lægstu greiðslum frá Tryggingastofnun og lægstu launa og það er ekki fyrr en á árinu 2022 sem ráðstöfunar fólks með heimilisuppbót fara undir ráðstöfunarfé fólks á lægstu launum.

Ef við látum þennan einstakling leigja íbúð á 175 þús. kr. og fá húsnæðisbætur í takt við tekjur sínar þá er staðan sú að tekjur hans dugðu langt fram á 18. dag hvers mánaðar í upphafi þessa árs en mun duga langt fram á 19. dag hvers mánaðar í árslok 2022. Það er erfitt að kalla þann árangur lífskjarasamninga.

Tekjur frá TR verður 18% lægri en lágmarkslaun

Fólk í sambúð á lægstu greiðslum frá Tryggingastofnun var með 9,8% lægri ráðstöfunartekjur en fólk á lægstu launum í upphafi þessa árs en verður með 18,1% lægri ráðstöfunartekjur, eftir skatta og gjöld, en fólk á lægstu launum í árslok 2022. Eins og sést hefur á þessari yfirferð er vonlaust að lifa einn af lægstu launum eða lægstu greiðslum Tryggingastofnunar með heimilisuppbót. Það er auðveldara ef fólk er í sambúð og getur dreift húsnæðiskostnaði og öðrum föstum kostnaði. En þar sem hluti greiðslna Tryggingastofnunar er bundinn sambúðarformi missir eftirlaunafólk og öryrkjar þann ávinning. Fólk í sambúð með tekjur frá Tryggingastofnun getur því enn síður kallað yfirstandandi kjarasamninga og tilheyrandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar lífskjarasamning.

Getum við ekki gert betur?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: