Þetta er hallærisleg afstaða í nútíma lýðræðisríki og ávísun á gömlu valdboðsstjórnmálin þar sem ráðherraræði og spilling fær að grassera áfram.
Þór Saari fyrrum þingmaður sér ekki miklar vonir fyrir Samfylkinguna með nýjum formanni. Þór skrifaði þetta á vegg Samstöðvarinnar:
Það er alveg ótrúlega hvimleið aðferð við að tala hlutina niður með því að segja að þeir séu engin töfralausn. Ég minnist þess ekki nokkurn tíma að Samfylkingin hafi kynnt ESB sem töfralausn, en úr því að nýr formaður veit betur, þá væri gott að fá staðfestingu.
Nýi formaðurinn hafnar líka lýðræðinu og því að í lýðræðisríki komi allt vald frá fólkinu. Ummæli hennar um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána eru smánarleg og blaut tuska framan í kjósendur og lýðræðið og staðfesting á því að Samfylkingin verði algjör kerfis-Fjórflokkur pólitískrar yfirstéttar, þar sem vald almennings verði ávalt í öðru sæti, eða enn aftar. Þetta er hallærisleg afstaða í nútíma lýðræðisríki og ávísun á gömlu valdboðsstjórnmálin þar sem ráðherraræði og spilling fær að grassera áfram. Sama ráðherraræði og spilling og kom okkur í Hrunið, sem n.b. gerðist einmitt á vakt Samfylkingarinnar. Það er leitt að sjá þessa vegferð Samfylkingarinnar og mig grunar að á þessu landsþingi hafi ekki bara verið skipt um forystu, heldur einnig útfararstjóra.