Er Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ógn við Sjálfstæðisflokkinn?
Varaþingmaðurinn Arnar Þór Jónsson hefur áhyggjur af vilja samflokksmanns síns, Jóns Gunnarssonar, um að auka möguleika lögreglunnar til að halda uppi nokkurs konar njósnum og Pétur og Pál.
Arnar Þór skrifar langa grein í Moggann í dag. Þar segir meðal annars:
Brýnt er að hafa þetta hugfast í ljósi fyrirhugaðrar framlagningar dómsmálaráðherra á frumvarpi til breytinga á lögreglulögum og hvort telja megi ákvæði þess nauðsynleg að gættum tilgreindum markmiðum og þá því aðeins að vandlega hafi verið upplýst um raunverulegt hættustig í samfélaginu er dugað geti sem haldbært og eðlilegt tilefni. Við meðferð málsins á vettvangi Alþingis mun reyna sérstaklega á Sjálfstæðisflokkinn og frelsisstefnu hans.
Í greininni er þetta einnig að finna:
Meðan ekkert breytist og á meðan skrumurum leyfist að ýkja aðsteðjandi hættur og kalla eftir auknum valdheimildum, sérréttindum og fjármunum sér og sínum til handa siglum við hægt og rólega í átt að hinni kröftugustu hringiðu, þar sem öllu er snúið á hvolf og orð hafa gagnstæða merkingu: Frelsisskerðing er öryggi. Ritskoðun tryggir málfrelsi. Jafnrétti felst í mismunun. Ofbeldi má beita í þágu friðar. Fjölbreytni þýðir að allir hugsi eins. Umburðarlyndi kallar á útskúfun þeirra sem hugsa ekki eins og aðrir. Fjölmiðlafrelsi er tryggt með því að gera fjölmiðla háða ríkinu. Menntun miðar að því að fjarlægja upplýsingar. Tjáningarfrelsi þýðir að þú eigir að endurtaka orð annarra, ekki tjá eigin hugsanir. Ánauð er frelsi. Fáfræði er styrkur. Lesendur geta bætt fleiru við, frá eigin brjósti.