Davíð Oddsson, ritstjóri Moggans, dregur upp nærmynd af Joe Biden, hugsanlega næsta forseta Bandaríkjanna. Ljós er að Davíð er ekki hrifinn af Joe Biden. Lýsir honum sem lifandis kjána.
„Næstum því hver einasti maður vissi það sem Biden vissi ekki, að hann væri í forsetaframboði en ekki að sækjast eftir sæti í öldungadeildinni og allir sem einn, nema Biden, vissu hvað ríkið þeirra hét, enda stóð það að auki á hundrað spjöldum sem blöstu við um allan sal og Joe var sá eini sem vissi ekki af hverju þau voru þarna,“ segir í nærmyndinni.
Demókratar hrósuðu happi þegar veiran kom, þótt þeir myndu aldrei segja það upphátt, enda voru þeir svo sannarlega ekki að fagna henni sem slíkri. Það var þó enn eitt sem hægt var að kenna Trump um hvernig fór, þótt verst hafi útkoman verið í þeim ríkjum sem demókratar stjórna. En best af öllu var þó það, að þá var hægt að koma Joe Biden fyrir í kjallaranum heima í eins konar sóttkví sem allir gamlingjar sættu um þær mundir.
Þar gátu stuðningsstöðvarnar einar fengið aðkomu og látið hann svara spurningum sem búið var að senda honum tveimur dögum áður og æfa í heimagerðu stúdíói. Þótt hann réði ekki við allar þær spurningar þá var hægt að koma í veg fyrir meiri háttar slys og sýna þær vandræðalegu í mesta lagi einu sinni. En í vikunni var þetta með „Biden in the bunker“ orðið verulega pínlegt og því ákveðið að taka nokkra áhættu og viðra hann stuttlega og varlega utan dyra og í eins vernduðu umhverfi og fært var.
Tekin var sú áhætta að láta hann tala við fréttamenn án þess að lesa hvert orð af blaði, þótt þess væri gætt að hann þyrfti helst ekki að svara spurningum.
Biden tilkynnti nokkuð óvænt að nú hefðu 120 milljónir Bandaríkjamanna látist af kórónuveirunni og það væri Trump forseta algjörlega að kenna hvernig haldið hefði verið á málum. Þetta var auðvitað rosaleg frétt og á heimsmælikvarða.
Nú eru dánartölurnar óneitanlega háar í Bandaríkjunum, en Biden tókst með sveiflu að gera þær að hreinu smælki og draga í leiðinni athyglina rækilega að því, á hversu mjóum og ótraustum þveng forsetaframboðið hans hangir.
Í fyrra sagði hann þá óvæntu stórfrétt að hann hefði farið á sínum tíma til Suður-Afríku og leyst Mandela úr haldi, sem hefði auðvitað glatt þá báða. Hann gæti því næst sagst hafa náð bin Laden naumlega með því að lemja hann með golfkylfu, þótt hann væri búinn að gleyma því af hverju hann gerði það eða á hvaða holu það var, enda hreint aukaatriði.“